Vitnisburður Heiðdísar Helgu Aðalsteinsdóttur, unnustu Arnars Jónssonar Aspar, og Árna Jónssonar, nágranna þeirra Arnars og Heiðdísar, var í nokkrum veigamiklum atriðum annar en hjá Sveini Gesti Tryggvasyni, sem ákærður er fyrir stófellda líkamsárás í tengslum við andlát Arnars í júní. Þegar Heiðdís bar vitni vék Sveinn úr dómsalnum, en það mun hann einnig gera þegar tvö önnur vitni mæta í dómsal.
Heiðdís lýsti því í sínum vitnisburði að hún hafi heyrt læti fyrir utan hús þeirra Arnars í Mosfellsdalnum eftir að Sveinn og fleiri komu þangað. Hafi Sveinn og aðrir sem mættu á staðinn, utan Jóns Trausta Lútherssonar og einnar konu, verið búnir að umkringja Arnar. Í skýrslutöku af Sveini hafði hann aftur á móti sagt að Arnar hafi veist að sér.
Síðar hafi hún séð þegar fólkið fór í bíla sína og að Arnar hafi kastað strákústi í bílinn sem Sveinn var í. Í framhaldinu hafi aðkomufólkið reynt að keyra yfir Arnar, fyrst við hesthús og svo upp við kyrrstæðan bíl. Að lokum hafi tekist að keyra utan í hann þannig að Arnar féll og keyrt var yfir fótinn á honum.
Hún hafi verið komin út á planið stuttu síðar þegar aðkomufólkið hafi verið búið að keyra niður heimreiðina frá húsinu. Arnar hafi þá verið kominn með járnprik og sagt „þeir keyrðu yfir fótinn á mér.“ Þetta hafi verið það síðasta sem Arnar hafi sagt við hana áður en hann dó.
Arnar og Heiðdís áttu á þessum tímapunkti 11 daga gamla dóttur. Sagði Heiðdís að hún hafi meðan þetta allt var í gangi nokkrum sinnum kíkt á hana og því ekki séð alla atburðarásina heildstæða. Næst hafi hún séð þar sem Sveinn var að kýla Arnar í brekkunni á heimreiðinni. Sagði hún Svein hafa lamið Arnar löngu eftir að hann var orðinn hreyfingarlaus.
Sagði Heiðdís að Sveinn hafi lamið Arnar oft og með föstum höggum í höfuðið. Lýsti hún því þannig að Sveinn hafi verið með hálstak á Arnari þar sem hann lá á grúfu. Sagðist hún ekki hafa séð hvernig þeir fóru í jörðina, en auk þess að vera með hálstakið hafi Sveinn látið höggin dynja á honum. Sagði hún að hún hafi fyrst séð Arnar berjast um, svo hafi hann hætt að hreyfast.
Þetta er nokkuð annar framburður en hjá Sveini sem sagði fyrr í dag að Jón Trausti hafi átt í átökum við Arnar í brekkunni og lamið hann. Sagði Sveinn að hann hafi hins vegar aðeins tekið við að halda Arnari niðri með að halda höndum hans fyrir aftan bak þar sem hann vildi ekki að Jón Trausti myndi veitast meira að honum.
Framburður nágranna þeirra Heiðdísar og Arnars í Mosfellsdalnum, Árna Jónssonar, var í stórum atriðum í takt við framburð Heiðdísar. Var hann að koma heim til sín þegar fyrstu stympingarnar höfðu átt sér stað upp við húsið. Mætti hann bílum aðkomumannanna sem voru á leið niður heimreiðina. Var hann stöðvaður í smá tíma en gat svo keyrt upp heimreiðina. Uppi við húsið hafi hann sé Arnar koma með járnprik og farið niður brekkuna í átt að mönnunum.
Í miðri brekkunni segir hann að Arnar hafi tekið sér stöðu. Sagði hann svo þann stærri og minni (Jón Trausta og Svein Gest) hafa farið á móti Arnari. Hafi Jón Trausti afvopnað Arnar og við það hafi Arnar reynt að forða sér upp brekkuna en runnið eftir nokkra metra. Þá hafi Sveinn komið og skellt Arnari á magann, tekið hann hálstaki og svo látið höggin dynja á honum.
Sagði Árni að Jón Trausti hafi eftir smá stund klappað á öxlina á Sveini, en Sveinn hafi eftir það áfram haldið hálstakinu. Hafi hann haldið því og legið ofan á Arnari þangað til heyrðist í lögreglunni koma inn í dalinn.
Árni sat allan tímann inni í bíl sínum og velti verjandi Sveins því fyrir sér hversu vel hann hafi getað séð átökin í brekkunni miðað við hvernig bíllinn sneri. Sagði Árni að bíllinn hefði snúið þannig að hann þyrfti aðeins að horfa til hliðar og því séð öll átökin í brekkunni mjög vel. Sagðist hann muna mjög vel eftir þessu öllu. „Þetta rifjast upp hvern einasta helvítis dag sem ég keyri upp brekkuna. Man þetta mjög vel.“