Fer fram á 4-5 ára fangelsi yfir Sveini

Sveinn Gestur Tryggvason.
Sveinn Gestur Tryggvason. mbl.is

Saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni fer fram á fjögurra til fimm ára fangelsi yfir honum.

Einnig er farið fram á að hann greiði samtals um 54 milljónir króna í bætur.

Aðalmeðferð í málinu fer nú fram í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Sveini. Hann er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar.

Að sögn réttargæslumanna fer Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir, unnusta Arnars, fram á að Sveinn greiði henni 21.759.535 krónur í miska- og skaðabætur með vöxtum.

Einnig er farið fram á að ákærði greiði ungri dóttur Arnars og Heiðdísar Helgu rúmar 18 milljónir króna í bætur með vöxtum.

Að sögn saksóknara fara foreldrar Arnars fram á samtals 9 milljónir króna í miskabætur, auk útfararkostnaðar. Fimmtán ára dóttir Arnars fer fram á 5 milljónir króna í miskabætur.

Saksóknari sagði að framburður Sveins í málinu hafi tekið miklum breytingum frá fyrstu skýrslutökum og að skýringar hans við aðalmeðferð málsins í gær vera afar haldlitlar.

Saksóknari sagði að ekkert vitni hafi lýst ofbeldi af hálfu Jóns Trausta Lútherssonar, sem var handtekinn í tengslum við málið. Að því leyti sé framburður ákærða í aðalmeðferðinni í gær í  „hrópandi ósamræmi“ við framburð annarra vitna.

Bætti saksóknari við að Sveinn Gestur hafi rofið 8 mánaða skilorðsdóm, bundinn til þriggja, ára með broti sínu.

Fram kom í máli saksóknara að líkamsárásin í Mosfellsdal hafi verið gróf og að Arnar hafi verið í þannig stöðu að hann hafi enga björg sér getað veitt. Afleiðingarnar séu óafturkræfar og einnig miklar fyrir aðstandendur Arnars. Sveinn hafi í aðalmeðferðinni í gær reynt að koma sök yfir á annan mann og fegra sinn hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert