Þorgils Þorgilsson, verjandi í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni, sagði við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að málið væri að mörgu leyti margslungið.
Hann sagði að frá upphafi hafi lögreglan haft þá óra að um handrukkun hafi verið að ræða en í raun hafi skjólstæðingur hans verið að sækja verkfæri til Arnars Jónssonar Aspar en Sveinn Gestur er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás í tengslum við andlát hans.
Þorgils sagði að verið sé að ákæra mann fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða og að til að hægt sé að dæma hann sekan verði að vera ásetningur til staðar til að ráðast að honum og gáleysi þannig að árásin hafi leitt til dauða. Hann sagði ljóst að Sveinn Gestur hafi ekki ráðist á Arnar heldur hafi árásin þegar verið hafin og nefndi að hann hefði hringt í Neyðarlínuna eftir aðstoð.
Einnig hafi hann stöðugt verið á flótta af vettvangi frá Arnari og að hann hafi síðar reynt að endurlífga hann. „Það er af og frá að ákærði hafi ráðist á brotaþola. Hann var að flýja brotaþola,” sagði Þorgils.
Sveinn Gestur sagði fyrir dómi í gær að Jón Trausti Lúthersson, sem var handtekinn vegna málsins, hafi veitt Arnari alla áverkana og hann hafi svo komið að og ekki viljað meiri meiðsl og því tekið við að halda Arnari niðri, sem hann sagði hafa verið mjög æstan. Hann hafi hins vegar haldið honum niðri með því að halda höndum hans fyrir aftan bak sitjandi klofvega á rassinum á honum.
Þorgils sagði í morgun mikinn vafa leika á því hvort Sveinn Gestur hafi lamið Arnar og haldið honum í hálstaki. Jafnvel þótt það teljist sannað sé vafi til staðar um hvort hann hafi valdið honum alvarlegum skaða, til dæmis með brotnu skjaldkirtilsbrjóski og nefbroti sem Arnar hlaut. Fjölmörg önnur atvik hefðu getað leitt til skaðans.
Hann benti á að 30 sekúndur hafi liðið frá því Sveinn Gestur hringdi í Neyðarlínuna og greindi frá því að verið væri að taka Arnar niður, þangað til hann hafi komið að Jóni Trausta. Heyrðist hann þá segja að hann væri að „taka við „chokinu””. Það bendi til þess að Jón Trausti hafi verið með Arnar í hálstaki.
Þorgils vísaði í vitnisburð réttarmeinafræðings sem hafi staðfest að það eina sem gat dregið Arnar til dauða eitt og sér hafi verið æsingsóráðsheilkenni og lyfjaeitrun.
Hann sagði æsingsóráðsheilkenni ekki koma upp af sjálfu sér. Undirliggjandi geðsjúkdómar, lyfjanotkun og fleiri mögulegar aðstæður geti vakið það upp. Hann nefndi að Arnar hafi verið með undirliggjandi greiningu ofsóknargeðklofa og hafi m.a. verið með stóran skammt af amfetamíni í blóðinu.
Í máli verjanda kom fram að ýjað hafi verið að því að Sveinn Gestur hafi vakið upp heilkennið en ekki sé hægt að sýna fram á að það eigi við rök að styðjast.
Hann gerði þá kröfu Sveinn Gestur verði sýknaður í málinu en hljóti til vara vægustu refsingu sem lög leyfa. Einnig krafðist hann þess að bótakröfu verði vísað frá.
Hann talaði um að Sveinn Gestur væri ekki í neyslu, stundaði ekki glæpi og hafi rekið tvö fyrirtæki þangað til þetta mál kom upp.