Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag deiliskipulagstillögu Landssímareitsins svokallaða við Austurvöll. Þar með er heimild til að reisa 160 herbergja hótel á byggingarreitnum fest frekar í sessi. Deiliskipulag hafði áður verið samþykkt fyrir reitinn en þá var talið að hann næði ekki inn í kirkjugarð Víkurkirkju. Í fyrra kom hins vegar í ljós að hluti garðsins er innan marka byggingarreitsins og að þar væri að finna grafir.
Eftir afgreiðslu málsins í borgarráði fer það nú til fullnaðarafgreiðslu borgarstjórnar á fundi hennar 5. desember.
Á fundinum í dag lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að fresta afgreiðslu skipulagstillögunnar þar til niðurstöður fornleifarannsóknar á reitnum lægju fyrir og svör hefðu fengist við fyrirspurn frá síðasta borgarráðsfundi um hvaða lagaheimildir væru fyrir því að grafinn yrði kjallari í austurhluta Víkurkirkjugarðs og stór hótelbygging reist þar ofan á.
Að sögn Kjartans Magnússonar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var afgreiðslan felld með fimm atkvæðum meirihlutans gegn tveimur atkvæðum Sjálfstæðisflokks. Í bókun Kjartans vegna málsins minnir hann á að Víkurgarður sé elsti kirkjugarður Reykvíkinga og að enn eigi eftir að komast til botns í lögfræðilegum álitamálum vegna eignarhalds garðsins. „Víkurgarður er helgidómur í hjarta borgarinnar sem ber að vernda í stað þess að steypa stórhýsi ofan í hann. Þar stóð fyrsta kirkja Reykjavíkur og rök hníga einnig að því að fyrir kristnitöku hafi þar verið heiðinn helgistaður. Hingað til hefur verið talið að grafir skuli vera friðhelgar eftir því sem kostur er.“
Varðmenn Víkurgarðs fengu að kynna sjónarmið sín á borgarráðsfundinum í morgun. Hópurinn hélt fjölsóttan fund í Neskirkju í fyrrakvöld þar sem samþykkt var að mótmæla í meginatriðum umsögn og afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um framkvæmdirnar fyrirhuguðu.
Félagið Lindarvatn ehf. er eigandi fatseigna á reitnum. Það er í helmingseigu Dalness ehf. og Icelandair Group hf. Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group, hefur skrifað undir leigusamning til 25 ára um rekstur hótels á reitnum. Á reitnum ætla Icelandair hótel sér að reka Iceland Parlament hótel undir merkjum Curio by Hilton.
Vala Garðarsdóttir forleifafræðingur stjórnaði uppgreftri á byggingarreitnum og í honum fannst fjöldi beinagrinda og í ljós kom að Víkurkirkjugarður, elsti kirkjugarður borgarinnar, nær inn á svæðið. Hann var aflagður árið 1838.
Vala sagði frá því í grein í Morgunblaðinu í apríl í fyrra að fyrra jarðrask og framkvæmdir hafi fjarlægt og rutt því til sem þar var. Frá lokum 18. aldar hafa allmörg hús staðið þar sem nú er hinn svokallaði Landssímareitur.
Kjartan Magnússon rifjar upp í bókun sinni vegna málsins að á sjöunda áratugnum hafi verið fyrirhugað að reisa viðbyggingu við Landsímahúsið sem átti að ná út að Kirkjustræti. Þegar byggingarframkvæmdir hófust kom í ljós að Víkurkirkjugarður náði lengra inn á byggingarreitinn en talið hafið verið. Byggingaráform voru þá endurskoðuð að tilhlutan þáverandi ríkisstjórnar og Landsímanum gert að minnka viðbygginguna um helming í því skyni að hlífa sem stærstum hluta kirkjugarðsins. „Öfugsnúið er að núverandi borgarstjórnarmeirihluti beri minni virðingu fyrir grafreitum í Víkurgarði og þeim fornleifum sem þar hafa fundist en áðurnefndir ráðamenn fyrir hálfri öld,“ segir í bókun Kjartans.
Hér getur þú séð myndband THG arkitekta sem sýnir fyrirhugaða hótelbyggingu á reitnum.