Guðni Einarsson
Vísbendingar eru um að tengsl geti verið á milli jöklabreytinga og eldgosa í Öræfajökli. Dr. Hjalti J. Guðmundsson, landfræðingur og skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg, skrifaði á sínum tíma doktorsritgerð um jöklabreytingar og gjóskulagafræði Öræfasveitar á nútíma.
Hann var spurður hvernig nýlegar hræringar í Öræfajökli rímuðu við niðurstöður rannsókna hans. „Ég reyndi að kortleggja lágmarksfjölda eldgosa í fjallinu undanfarin 10.000 ár. Ég skoðaði bara ljósu gjóskulögin, það er vikurlögin. Það höfðu orðið fjögur súr gos í Öræfajökli á þessu tímabili og öll frekar lítil.
Það gætu hafa orðið fleiri eldgos á þessum tíma sem framleiddu dökka gjósku. Ég skoðaði líka samhengið á milli ísbráðnunar og tíðni eldgosa. Ákveðnar vísbendingar voru um að eftir því sem meira bráðnar af jöklinum aukist líkurnar á að það komi eldgos,“ segir Hjalti í umfjölluin um eldstöðina í Öræfajökli í Morgunblaðinu í dag.