„Þrátt fyrir að dómstólinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að lögin um landsdóm standist Mannréttindasáttmálann breytir það ekki þeirri niðurstöðu sem ég held að flestir séu sammála um að atkvæðagreiðslan á Alþingi var pólitísk.“
Frétt mbl.is: „Má segja að ríkið sleppi með þetta“
Þetta segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í samtali við mbl.is vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, gegn íslenska ríkinu vegna landsdómsmálsins. Dómstóllinn sýknaði íslenska ríkið af kæru Geirs en Geir var sakfelldur í landsdómi fyrir einn af upphaflega sex ákæruliðum fyrir að hafa ekki boðað til ríkisstjórnarfunda um mikilvæg málefni.
„Vann landsdómsmálið í öllum höfuðatriðum“
„Eftir stendur að Geir vitaskuld vann landsdómsmálið í öllum höfuðatriðum en aðferðin í þinginu við að ákveða hverjir yrðu ákærðir og hverjir ekki segir allt um það að þetta var hugsað sem pólitísk aðför. Ég bara minni á í því sambandi að þáverandi fjármálaráðherra, Stengrímur J. Sigfússon, sagði eftir atkvæðagreiðsluna að bakari hefði verið hengdur fyrir smið. Sterkari játningu á því að þetta var pólitík er í rauninni ekki hægt að draga fram.“
Frétt mbl.is: Geir segist virða niðurstöðuna
Þorsteinn segir að aðalatriðið nú þegar þessu sé lokið eftir öll þessi ár sé að þingið verði „að afnema þessi úreltu og fáránlegu lög um landsdóm og það má ekki dragast. Núna er þetta að baki og þá er engin afsökun fyrir hvorki ríkisstjórnina eða þingið að fella þetta úr gildi og innleiða bara almennt réttarfar um ábyrgð ráðherra.“