15 ára meðvitundarlausar í miðborginni

Stúlkurnar fundust meðvitundarlausar á tröppum í miðborginni klukkan hálfátta í …
Stúlkurnar fundust meðvitundarlausar á tröppum í miðborginni klukkan hálfátta í gærkvöldi. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Tvær fimmtán ára stúlkur fundust meðvitundarlausar úti við sökum fíkniefnaneyslu í gærkvöldi. Stúlkurnar fundust á tröppum í miðborginni klukkan hálfátta í gærkvöldi eftir að tilkynnt hafði verið um þær til Neyðarlínunnar.

Sjúkrabíll var sendur á staðinn og voru stúlkurnar fluttar á Landspítalann og lagðar inn á gjörgæsludeild. Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir aðra stúlkuna vera að koma til en að hin sé enn í öndunarvél á gjörgæsludeild. Grunur leikur á að þær hafi tekið inn fíkniefnið MDMA. 

Guðmundur Páll segir ekki algengt að svo ungir krakkar finnist meðvitundarlausir sökum fíkniefnaneyslu. „En þetta er náttúrulega efni sem getur leitt til dauða og hefur gert það. Það hafa mörg dauðsföll verið hér á landi vegna þessa.“ Hann rifjar upp að áður hafi verið greint frá því að fólk á tvítugs- og þrítugsaldri hafi tekið inn of stóran skammt af fíkniefninu og látið lífið.

Taka inn eitthvað sem þau vita ekki hvað er

Barnaverndaryfirvöld voru kölluð til og málið er í rannsókn hjá lögreglu. „Við erum bara rétt að byrja rannsóknina,“ segir Guðmundur Páll.

Frost var í gærkvöldi og mikill kuldi og hefðu stúlkurnar því getað orðið úti. Að sögn Guðmundar Páls kemur ekki fram hvort þær hafi verið orðnar kaldar þegar þær fundust, né heldur liggur enn fyrir hvaðan þær voru að koma.

Hann segir ekki algengt að börn á þessum aldri séu í neyslu og að mál sem þessi séu alltaf erfið fyrir þá sem að koma, ekki hvað síst þegar illa fer.

„Þessir krakkar eru oft að taka inn eitthvað sem þau vita ekkert hvað er eða hversu sterkt það er. Þetta er framleitt einhvers staðar hjá mönnum úti í bæ eða úti í löndum, og sem hafa ekki endilega hundsvit á hvort þeir eru að blanda þetta sterkt eða dauft. Síðan taka þessir krakkar þetta inn og svo er það búið eftir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert