„Það verður óveður áfram í allan dag,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Hann á von á óbreyttu veðri norðan- og austanlands í dag og ef eitthvað er mun það fara versnandi seinnipartinn.
Jafnvel mun bæta aftur í snjókomuna á Norður- og Austurlandi og herða örlítið á vindinum austanlands.
Að sögn Ara mun veðrið lagast á morgun og vestantil er spáð fínu veðri.
Í fyrramálið mun blása á Norðaustur- og Austurlandi með éljum en smám saman gengur það niður. Það verður ekki fyrr en annað kvöld sem veðrið þar verður orðið þokkalegt.
Óveðrið sem hefur verið undanfarið norðan- og austantil stafar af samspili hæðar yfir Grænlandi og lægðar milli Íslands og Noregs. Hæðin hefur völdin vestast á landinu og því hefur veðrið á Vestfjörðum verið nokkuð gott með örlitlum éljum.
Varðandi veðrið í kvöld segir Ari að mestur vindur verði á Suðausturlandi undir Vatnajökli. Einnig verða mjög skæðir veðurstrengir á sunnanverðum Austfjörðum.
Versta veðrið í kvöld verður aftur á móti þegar saman fer stormur og hríð eins og norðaustanlands.
Hann reiknar með roki og jafnvel ofsaveðri á stöku stað á Suðausturlandi og á Austfjörðum og að hviðurnar geti farið yfir 40 metra á sekúndu, jafnvel mælst yfir 50 metrar á sekúndu.
„Góðu fréttirnar fyrir fólk sem hefur ætlað sér að fara í kaupstaðarferðir þessa vikuna er að það er góð spá þegar þessu er lokið, á sunnudag og fram eftir næstu viku,“ segir Ari.