Veðrið er að mestu gengið niður á Vestfjörðum og reiknað er með því að óvissustig vegna snjóflóðahættu fari þar af fljótlega.
Þetta segir Magni Hreinn Jónsson á ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands.
Hann segir að áfram verði fylgst með gangi mála á Norðurlandi og Austfjörðum en áfram verður leiðindaveður þar í dag.
Fyrr í vikunni féllu nokkur snjóflóð á Vestfjörðum og fóru þau meðal annars yfir vegi á Súðavíkurhlíð, Önundarfirði og Eyrarhlíð.
Á Vestfjörðum er vegur lokaður um Klettsháls og um Súðavíkurhlíð, að því er kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Lokað er um Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Hófaskarð. Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð, sem og Fagridalur og Fjarðarheiði.