Engar mjólkurvörur til Húsavíkur

Frá Akureyri í morgun.
Frá Akureyri í morgun. mbl.is/Þorgeir

„Ég veit ekkert hvað við fáum í dag. Mjólkin átti að koma í dag en það er spurning hvort Víkurskarð opnast,“ segir Helga Soffía Bjarnadóttir, starfsmaður Krambúðarinnar á Húsavík.

Óvíst er hvort mjólkurvörur berast til bæjarins í dag frá Akureyri vegna óveðursins sem hefur verið á Norðurlandi.

Mjólkurvörur koma í Krambúðina annan hvern dag og komu þær síðast í fyrradag. Helga Soffía tekur samt fram að úrvalið í versluninni sé ágætt og ástandið ekkert slæmt.

Lögreglan á Húsavík segir að færðin innanbæjar sé mjög góð en hún sé slæm í sveitunum í kring þar sem víða er ófært. Þess vegna komast engar vörur til bæjarins úr neinni átt.

Að sögn lögreglunnar var björgunarsveitin ræst út í nótt til að aðstoða fólk sem ætlaði að fara til Akureyrar en ekkert varð af því ferðalagi vegna ófærðar.  

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hríðarveður sé á Norðurlandi eystra og vegir víða þungfærir eða ófærir.

Lokað er á Öxnadalsheiði, í Ólafsfjarðarmúla og á Víkurskarði. Eins er lokað á Hófaskarði og síðan er lokað yfir Fjöllin frá Mývatni og austur um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert