Hildur Jakobína Gísladóttir, fyrrverandi félagsmálastjóri á Ströndum, segir að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hafi beitt sig ofbeldi í starfi sem varð til þess að hún hrökklaðist úr starfi. Þetta kemur fram í facebookfærslu hennar. Þetta er ekki eina tilvikið þar sem kvartað er yfir framkomu Braga í starfi.
Barnaverndarnefndir höfuðborgarsvæðisins hafa sent fjölmargar kvartanir um framkomu forstjóra Barnaverndarstofu, Braga Guðbrandssonar, sem og framkomu stofnunarinnar Barnaverndarstofu í garð þeirra til félagsmálaráðuneytisins. Í byrjun nóvember áttu fulltrúar þeirra fund í félagsmálaráðuneytinu þar sem kvörtunum var komið á framfæri. Í vikunni var Barnaverndarstofu og forstjóra hennar sent bréf og óskað eftir svörum við þessum ásökunum. Frestur til að svara þeim er til 6. desember.
„Við höfum ekki viljað tjá okkur efnislega um málið fyrr en við höfum fengið viðbrögð frá Barnaverndarstofu [...] það eru það alvarleg tilvik að við töldum rétt að senda málið í formlegan farveg innan ráðuneytisins,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Málið er komið í nefnd þar sem það verður skoðað en ráðuneytið hefur skýra eftirlitsskyldu gagnvart Barnaverndarstofu.
„Það hefur sinn framgang og mikilvægt að tekið sé á málinu af alvöru og unnið eins hratt og kostur er fyrir alla,“ segir Þorsteinn spurður hversu langan tíma málið muni taka.