Holtavörðuheiði gæti opnast síðar í dag

Frá Holtavörðuheiði í gær.
Frá Holtavörðuheiði í gær.

Búist er við því að Holtavörðuheiði verði opnuð síðar í dag. Reiknað er með því að Öxnadalsheiði verði ekki opnuð fyrr en í fyrramálið. Fjallavegir á Norðausturlandi verða líklega ekki opnaðir fyrr en líður á morguninn en samkvæmt veðurspá mun veðrið ekki ganga niður að ráði fyrr en með morgni.

Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.

Opnun Fjarðarheiðar og Fagradals á Austurlandi gæti dregist fram yfir hádegi á morgun.

Á suðausturhorninu og í kringum Vík dregur ekki úr vindi fyrr en eftir hádegi og á þeim slóðum eru það vindhviðurnar sem þarf að hafa áhyggjur af.

Búið er að opna Mosfellsheiði en Lyngdalsheiði er enn lokuð. 

Lokað er um Siglufjarðarveg, Ólafsfjarðarmúla, Öxnadalsheiði, Víkurskarð og Hófaskarð. Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru einnig lokuð, sem og Fagridalur og Fjarðarheiði.

Í Hamarsfirði eru gríðarlegar vindhviður og ófært vegna óveðurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka