Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum í nótt að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Rúmlega 30 björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum víða um land frá því seint í gærkvöldi, aðallega þó á norðanverðu landinu.
Fyrsta útkallið kom um fjögurleytið í nótt og var það vegna bifreiðar sem hafði bilað fyrir utan Húsavík. Voru þar á ferð starfsmenn kísilvers PCC á Bakka, sem björgunarsveitarmenn tóku að sér að koma til vinnu.
„Svo er það alltaf þannig að þegar okkar fólk er á leið úr og í útköll er það að pikka upp verkefni hér og þar á leiðinni,“ segir Davíð.
Björgunarsveitir sinntu einnig ýmsum verkefni á Akureyri og nágrenni um sexleytið í morgun. Einn bíll sat fastur nærri Krossastöðum utan við Akureyri og þá fóru björgunarsveitir á Akureyri hring um bæinn og aðstoðuðu fólk víða að beiðni lögreglu, en slæm færð er í bænum.
Á sjöunda tímanum varð bíll frá Vegagerðinni svo fastur á Lyngdalsheiðinni. Var hann það illa fastur að sögn Davíðs að nota þarf stórvirk tæki til að koma honum til aðstoðar. Um svipað leyti var verið að manna lokunarpósta á Lyngdalsheiði, bæði Laugarvatnsmegin og við Mosfellsheiðina, og kveðst Davíð gera ráð fyrir að það komi til frekari lokana í dag.