Bílalestin lögð af stað yfir heiðina

Flutningabílalestin áður en lagt var af stað.
Flutningabílalestin áður en lagt var af stað. mbl.is/Guðlaug Sigurðardóttir

Talsverður fjöldi fólks var í nótt veðurtepptur í Varmahlíð þar sem Öxnadalsheiði var lokuð. Sumir voru þarna aðra nóttina í röð. Allt að 20 flutningabílar stilltu sér upp meðfram þjóðvegi 1 meðan beðið var, en núna á tíunda tímanum var heiðin aftur opnuð og er bílalestin farin af stað austur eftir.

Pétur Stefánsson, rekstrarstjóri kaupfélagsins í Varmahlíð, segir í samtali við mbl.is að búið sé að opna umferð í báðar áttir og snjómoksturstæki séu farin að moka í allar áttir. „Bílalestin hér í Varmahlíð er að leggja í hann, margir þegar farnir af stað,“ segir Pétur.

Spurður um veðrið undanfarna sólarhringa segir Pétur að það hafi verið mjög mikil veðurhæð og í langan tíma og því hafi fylgt mikil snjókoma. Hann segir að í svona hvassviðri fjúki snjórinn hins vegar af vegum, en hafi safnast upp við hús og bæi. „Þetta var feikna skot sem kom.“

„Við höldum og vonum að þetta sé búið,“ segir Pétur að lokum, en byrjað er að birta til og vind farið að lægja.

mbl.is/Guðlaug Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert