Fjöldi vega um landið er enn lokaður vegna óveðurs og ófærðar. Vegagerðin er byrjuð að moka á Norðurlandi, en fyrir austan Akureyri er beðið með mokstur vegna óveðurs. Holtavörðuheiði er einnig enn lokuð.
Þá varar Vegagerðin sérstaklega við gríðarlega miklum vindhviðum í Hamarsfirði við Djúpavog, en vegurinn er ófær vegna óveðurs og datt vindmælir Vegagerðarinnar út í gærkvöldi í miklum hviðum.
Lokað er um Holtavörðuheiði, Víkurskarð, Hófaskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fagradal og Fjarðarheiði.
Hálka, hálkublettir og snjóþekja eru á Vesturlandi og Vestfjörðum og nokkur hálka eða hálkublettir er víða á Suðurlandi.
Mokstur er hafinn á Öxnadalsheiði og á Ólafsfjarðarmúla. Þæfingur, snjóþekja og skafrenningur er víða í Eyjafirði.
Á vef Vegagerðarinnar má sjá að vindmælir í Hamarsfirði mældi hviður sem voru mest 65,8 m/s í gærkvöldi. Á ellefta tímanum dettur mælirinn aftur á móti út. Vindhraði á sama tíma var um 30 m/s.