Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar, telur að framtíð flokksins sé björt, þrátt fyrir vonbrigðin í nýafstöðnum Alþingiskosningum. Flokkurinn var í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili en er nú fallinn út af þingi.
„Við erum að þétta raðirnar og stemningin í hópnum er þannig að við höldum ótrauð áfram,“ segir Björt en hún var í dag sjálfkjörin formaður Bjartrar framtíðar á aukaaðalfundi flokksins. Hún segir að fundurinn hafi verið góður og að framundan sé vinna til að koma sér á lappir eftir áfallið.
„Þegar maður verður fyrir áföllum er ekkert annað að gera en að standa upp aftur.“
Formaðurinn hefur ekki áhyggjur af því að flokkurinn falli í gleymsku. „Þetta högg gerði það að verkum að við þurftum að meta stöðuna en við komum tvíefld til baka. Það er oft þannig að maður lærir af ósigrum og er tilbúnari í næsta slag. Það verður þannig með okkur.“
Aðspurð segir Björt að henni lítist ekki vel á fyrirhugaða ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokk en flokkarnir hafa átt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikur.
„Mér líst ekki vel á þær. Forsvarsmenn flokkanna lýsa því hvernig þessi gamaldags stjórnmál þeirra muni snúast meira um stöðnun en að taka okkur eitthvað lengra inn í glæsta framtíð. Það er pólitík sem mér líst ekki á,“ segir Björt en hún telur að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gæti séð eftir því ef af fyrirhugaðri ríkisstjórn verður:
„Það munu koma upp mál. Ég held að málefnasamningurinn verði ágætis lestrarefni á pappír. Við vitum að það munu koma upp mál eins og hneykslismálið hvernig dómsmála- og forsætisráðherra höndluðu mál um uppreist æru. Svona mál munu koma upp og þá gæti ég trúað því að Katrín Jakobsdóttir myndi óska þess að hún hefði íhugað þetta aðeins betur.“