Ragnar Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, kemur Ragnari Önundarsyni, fyrrverandi bankastjóra og bankamanni, til varnar í tísti á Twitter nú fyrir stundu. Ragnar Önundarson var mikið gagnrýndur í vikunni fyrir ummæli sín um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, í kjölfar mikillar umræðu um kynferðislega áreitni gegn konum í pólitík.
Í tístinu segir Ragnar Sigurðsson að sú meðferð sem Ragnar Önundarson hafi fengið „fyrir nákvæmlega ekki neitt“ sé gjörsamlega óásættanleg. Segir hann „góða fólkið“ búið að missa vitið.
„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd” á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig,“ voru ummælin sem Ragnar Önundarson skrifaði sem vöktu hörð viðbrögð fjölmargra.
Skrifuðu tugir athugasemdir við færslu Ragnars Önundarsonar og voru flest þeirra gagnrýnin á ummælin. Þá líkuðu hundruð og jafnvel upp í yfir eitt þúsund nokkur andsvaranna, meðal annars frá Áslaugu sjálfri sem krafðist þess að Ragnar myndi útskýra ummæli sín nánar.
Ragnar Önundarson skýrði ummæli sín nánar í bréfi til Áslaugar sem hann birti á Facebook-síðu sinni daginn eftir. Kallaði hann þar eftir að Sjálfstæðisflokkurinn myndi aftur hafa meiri breidd og ná til víðari hóps þjóðfélagsins. Sagði hann slík markmið ekki samrýmast því hvernig Áslaug kæmi fram á umræddri mynd.
Benti hann á að Áslaug væri opinber persóna sem gæti ekki haft neina „prívatsíðu“ opna öllum. Ragnar sagði að með myndinni „var kornung forystukona Sjstfl. að sýna á sér hlið sem allir hafa, kynveruna, en sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga. Unggæðingslegt alvöruleysi birtist á ný í æðstu forystu flokksins. Dómgreindin er til umhugsunar. Þetta er kjarni málsins. Ekki myndin, þó að hún hafi afhjúpað alvöruleysið.“