Á annað hundrað manns mættu á íbúafund sem var haldinn í Hofgarði í Öræfum vegna Öræfajökuls. Vísindamenn fóru yfir stöðuna og Lögreglan á Suðurlandi kynnti vinnu vegna neyðarrýmingaráætlunar sem var gefin út fyrir helgi.
Óvissustig er í gildi vegna aukinnar virkni í Öræfajökli síðustu daga.
Að sögn Rögnvalds Ólafssonar, verkefnastjóra hjá almannavörnum, var einnig kynnt vinna sem er framundan varðandi hina hefðbundnu rýmingaráætlun og mikilvægi góðrar samvinnu á milli viðbragðsaðila á svæðinu og heimamanna.
Jafnframt var kynnt rafræn könnun sem lögreglan ætlar að senda íbúum á svæðinu á næstunni þar sem spurt verður út í hvernig útvarpssendingar eru á þeirra heimili, símasamband og fleira í þeim dúr.
Niðurstaðan verður notuð til að hjálpa til við gerð rýmingar- og viðbragðsáætlunar.
Rögnvaldur segir að engar stórar athugasemdir hafi verið gerðar við neyðarrýmingaráætlunina. „Það var almenn sátt um það. Fólk sýndi því skilning að svona plan þurfi að vera til og það er mjög ánægt með að það hafi verið farið í þessa vinnu,” segir hann.
„Fólk hefur áhyggjur af þessum stutta viðbragðstíma sem er frá gosi og þangað til mögulegt flóð getur látið á sér kræla. Það eru mjög eðlilegar áhyggjur en það sem við viljum hnykkja á oft og reglulega að með neyðarrýmingarplanið, það eru allar líkur á því og allt sem segir okkur í sjálfu sér, bæði varðandi söguna og jarðfræði almennt, að við eigum að fá fyrirvara,” segir hann og nefnir jarðskjálfta sem dæmi.
Að sögn Rögnvalds er verið að setja upp fleiri mæla sem eiga að mæla jarðskjálftavirkni í kringum Öræfajökul. Veðurstofa Íslands hefur einnig óskað eftir fjárveitingu fyrir fleiri mælum. Vöktun svæðisins mun því aukast verulega frá því sem verið hefur.
Lögreglan verður áfram með vakt á svæðinu og hún verður tengiliður við íbúana. Jafnvel mun lögreglan heimsækja hvern bæ á svæðinu til að fara yfir málin með fólkinu.
Ábendingar komu fram á fundinum í kvöld um að símasamband væri gloppótt sums staðar. Það er eitt af því Póst- og fjarskiptastofnun er að skoða. Rögnvaldur segir að rafræna könnunin muni hjálpa til við sjá hvernig sambandið er á mismunandi stöðum.
Rögnvaldur segir viðbúið að fleiri fundnir verði haldnir á næstunni. Þegar hefur verið ákveðið að halda tvo fundi, báða með ferðaþjónustuaðilum. Fyrri fundurinn verður í Freysnesi í fyrramálið klukkan 9 og sá síðari á fimmtudaginn í Reykjavík með ferðaþjónustuaðilum sem gera út frá Reykjavík.