„Það var verið að fresta fluginu okkar ennþá meira, til 6.desember,“ segir Elma Valgerður Sveinbjörnsdóttir, sem er strandaglópur á indónesísku eyjunni Balí ásamt vinkonu sinni Védísi Elsu Guðmundsdóttur. Þar stendur nú yfir gos í eldfjallinu Agung og flugvöllurinn á eyjunni er lokaður af þeim sökum.
Elma og Védís eru á ferðalagi um heiminn og áttu bókað flug til Ástralíu á sunnudag. Því var aflýst og nú gera þær ekki ráð fyrir því að komast af eyjunni í bráð.
„Við erum byrjaðar að sjá fólk ganga með grímur fyrir öndunarfærunum og við erum að fara að kaupa okkur svoleiðis á eftir. Það er smá öskufall hérna þar sem við erum, en ekki mikið. Það var grenjandi rigning áðan sem á ekki að vera gott, eitthvað út af mengun og ösku,“ segir Elma Valgerður.
Hún segir fólk almennt mjög rólegt yfir eldgosinu, en stelpurnar eru staddar í bænum Denpasar, sem er um fimmtíu kílómetra frá Agung. Á morgun stefna Elma og Védís á að fara nær eldfjallinu og ná af því myndum.
„Við erum búnar að vera að tala við aðra ferðamenn sem hafa farið nær fjallinu og myndirnar eru svo ótrulega flottar að okkur dauðlangar að fara líka. Við ætlum að taka stöðuna á þessu á morgun og ef það er einhver hætta þá ætlum við ekki,“ segir Elma.
Elma og Védís hafa íhugað þann möguleika að fara siglandi frá eyjunni og taka flug annars staðar frá. Sú hugmynd gekk hins vegar ekki upp, þar sem alþjóðaflugvellinum á nærliggjandi eyju, Pulau Lombok, hefur einnig verið lokað vegna eldgossins.
Því eru þær fastar á Balí, eins og staðan er núna. Sem betur fer hefur ekki reynst erfitt að fá hótelgistinguna framlengda og hafa stelpurnar bókaða gistingu á Balí næstu fjóra daga.