Fundu LSD og spice á Litla-Hrauni

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Hald var lagt á umtalsvert magn fíkniefnanna LSD og Spice á Litla-Hrauni í lok síðustu viku.

Fyrst fannst LSD í fórum fanga við reglubundna athugun í fangaklefa. Í framhaldinu var gerð leit í klefa annars fanga þar sem kannabisefnið spice fannst.

Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður á Litla-Hrauni, segir að málið hafi verið sent til lögreglu. Efnin munu fara í rannsókn og þá kemur í ljós hversu magnið var mikið.

Hann telur að miðað við magn efnanna sé líklegt að það hafi verið ætlað til dreifingar innan fangelsisins.

Að sögn Halldórs Vals finnast fíkniefni alltaf annað slagið í fangelsinu en allur gangur sé á því hversu magnið er mikið.

„Viðbrögðin eru tvenns konar. Við reynum að leggja hald á þetta til að koma í veg fyrir að það fari á milli fanga. Um leið reynum við að bjóða mönnum hjálp við að komast úr neyslunni með aðstoð meðferðarfulltrúa og annarra sérfræðinga,“ segir hann.

Hann segir LSD vera mjög fyrirferðarlítið efni og gríðarlegt magn geti verið á litlu blaði. Spice sé aftur á móti „nýja tískuefnið í fangelsunum“ og það sjáist annað slagið í mismiklu mæli.

Halldór Valur tekur fram að þessi fíkniefnamál endurspegli ekki hið almenna ástand í fangelsinu og margt jákvætt fari þar fram sem meðal annars tengist námi og störfum fanga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert