Stjórnmálakonur kalla eftir endalokum kynjamisréttis

Heimsþing alþjóðasam­tak­anna WPL, Women Political Lea­ders Global For­um, í Hörpu.
Heimsþing alþjóðasam­tak­anna WPL, Women Political Lea­ders Global For­um, í Hörpu. mbl.is/Eggert

„Kvenkyns stjórnmálaleiðtogar frá öllum löndum kalla eftir endalokum kynjamisréttis og kynferðislegrar áreitni. Slíkt ætti ekki að þrífast innan stjórnmálanna né nokkurs staðar annars staðar.“ Svo hljóðar yfirlýsing sem kynnt var á heimsþingi alþjóðasam­tak­anna WPL, Women Political Lea­ders Global For­um, í Hörpu í dag.

Frétt mbl.is: „Raddir kvenna verða að heyrast“

Sérstök umræða var á þinginu um átakið #metoo og hvernig stjórnmálakonur bæði hér á landi og víðar hafa stigið fram að undanförnu og greint frá kynferðislegri áreitni innan stjórnmálanna. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, tók þátt í pallborðsumræðum um átakið ásamt Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands, og Lívia Járóka, varaforseta Evrópuþingsins.

Enginn hlustaði fyrr en hún klæddi sig kvenlega

„Þegar ég byrjaði á þinginu 2004 var ég alltaf í gallabuxum því að ég var sígaunastelpa og ég vildi ekki að fólk héldi að ég hefði með einhverjum hætti áhuga á einhverri athygli sem hefði með kvenleika minn að gera,“ sagði Járóka. Í tvö ár klæddi hún sig dálítið eins og karlmaður en þá hlustaði svo gott sem enginn á það sem hún hafði að segja að sögn Járóka. Hún er frá Ungverjalandi þar sem um 90% þingmanna eru karlar. „Þegar ég skipti yfir í kvenlegri föt var allt í einu byrjað að hlusta á mig og það var þá sem ég áttaði mig á því að ekki væri allt með felldu.“

Lívia Járóka, varaforseti Evrópuþingsins.
Lívia Járóka, varaforseti Evrópuþingsins. Ljósmynd/Wikipedia

Árið 2014 var stofnuð sérstök nefnd á Evrópuþinginu sem vinnur gegn kynferðislegri áreitni og starfrækt er sérstök skrifstofa sem bæði þingmenn og aðstoðarmenn sem starfa við þingið geta leitað til. Í næstu viku stendur til að setja á fót hóp á Evrópuþinginu sem mun koma saman á fjögurra mánaða fresti til að ræða hvernig er hægt að hvetja karla til að taka þátt í að uppræta vandamálið. Hún segir aðstoðarmenn Evrópuþingmanna oft ekki þora að stíga fram og greina frá upplifun sinni af ótta við að missa vinnuna. 

„Ég er sammála því að hlutverk þingforseta er mikilvægt í hinu pólitíska samhengi. Ef þingforsetar taka þetta mál föstum tökum gæti það skipt sköpum,“ sagði Helen Clark sem var forsætisráðherra Nýja-Sjálands frá 1999 til 2008. Hún segir að vissulega hafi mikið áunnist í baráttunni undanfarna áratugi en mikilvægt sé að árangurinn sem náðst hefur og baráttan fyrir auknu jafnrétti lifi áfram með komandi kynslóðum.

Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Helen Clark, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Ljósmynd/NZ HERALD

Sterkari en fyrir viku síðan

Í síðustu viku kom Áslaug Arna fram í sjónvarpi og sagði frá kynferðislegri áreitni ásamt tveimur öðrum íslenskum stjórnmálakonum. Áslaug er yngsti þingmaðurinn á Alþingi í dag en hún verður 27 ára á morgun.

„Það sem ég óttaðist mest við að taka þátt í þessari umræðu, með því að deila minni reynslu, var óttinn við að virðast ekki vera jafnsterk sem stjórnmálamaður, bæði innan míns stjórnmálaflokks og í samfélaginu. Kannski hafði ég ekki margar fyrirmyndir innan míns stjórnmálaflokks hvað þetta varðar svo ég ákvað að vera fyrirmynd sjálf,“ sagði Áslaug Arna meðal annars.

„Ef mín rödd getur haft jákvæð áhrif fyrir aðra þá ætti ég að nota hana. Þess vegna er ég í stjórnmálum, #metoo sýnir okkur hversu kraftmiklar við getum verið saman. Konur ættu aldrei að sætta sig við það að ekki sé talað við þær af virðingu kyns síns vegna,“ segir Áslaug Arna. „Mér finnst ég sterkari en ég var fyrir viku.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert