Ríkið sýknað í deilu um Fell

Jökulsárlón.
Jökulsárlón. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska ríkið hefur verið sýknað af kröfum Fögrusala ehf. fyrir héraðsdómi er varðar beitingu forkaupsréttar á jörðinni Felli í Suðursveit sem liggur að Jökulsárlóni.

Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands á föstudag. Ríkið ákvað í janúar að nýta forkaupsrétt vegna jarðarinnar á grundvelli laga um náttúruvernd, en jörðin er á náttúruminjaskrá.

Fögrusalir keyptu Fell 4. nóvember 2016 en sýslumaðurinn á Suðurlandi sagði í samtali við mbl.is í janúar að forkaupsréttur verði ekki virk­ur fyrr en bind­andi samn­ing­ur kemst á milli eig­anda for­kaups­rétt­ar­and­lags og kaup­anda. Í þessu tilviki var litið svo á að binandi samningur kæmist ekki á fyrr en tilboð var samþykkt, sem var 11. nóvember.

Vegna forkaupsréttar ríkisins gekk það inn í tilboðið 9. janúar á þessu ári, 66 dögum eftir 4. nóvember en 59 dögum eftir 11. nóvember.

Fögrusalir töldu að ríkissjóður hefði tilkynnt of seint um að til stæði að nýta lögbundinn forkaupsrétt að jörðinni en héraðsdómur féllst ekki á þær kröfur og var íslenska ríkið sýknað.

Uppfært kl 13:01: Samkvæmt lögmanni Fögrusala hefur áfrýjunarstefna í málinu þegar verið gefin út og búið að áfrýja því til Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka