Áhersla á nýsköpun hjá nýrri ríkisstjórn

Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Í ríkisstjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er rík áhersla lögð á hvers konar nýsköpun og er áhersla á hana ítrekuð í flestum köflum sáttmálans. Þannig kemur orðið nýsköpun átján sinnum fram í sáttmálanum. Meðal annars á að skoða eigi að afnema þak á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar og efla nýsköpun á öllum skólastigum.

Í upphafi sáttmálans kemur fram að „nýsköpun og rannsóknir“ sé ein af megináherslum nýrrar ríkisstjórnar ásamt sex öðrum málaflokkum. Þá er tekið fram meðal annars undir heilbrigðismálum, landbúnaði, umhverfismálum og sjávarútvegi að lögð verði áhersla á nýsköpun.

Eins og komið hefur fram í dag verður stofnaður þjóðarsjóður utan um arð af auðlindum landsins. . Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því á að efla ný vel launuð störf í framtíðinni.

Tekið er fram að í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga sé nýsköpun og hagnýting hugvits mikilvæg forsenda atvinnulífsins. Mótuð verður heildstæð nýsköpunarstefna í samráði við atvinnulífið, vísindasamfélagið, menntasamfélagið og stjórnmálaflokka.

Endurgreiðsla kostnaðar vegna nýsköpunar var nokkuð til umræðu hjá síðustu ríkisstjórn. Ný ríkisstjórn ætlar að fella niður hámark á slíkum endurgreiðslum. „Til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands mun ríkisstjórnin endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. Áfram verður stutt myndarlega við samkeppnissjóði í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert