„Allir Íslendingar njóti góðs af“

Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Veruleg umfjöllun er um kynjajafnrétti og úrbætur í þeim efnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var á Listasafni Íslands nú fyrir skömmu. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og verðandi forsætisráðherra, sagði að ýmislegt í þeim málaflokki myndi eflaust vekja athygli. Meðal annars verður farið yfir meðferð kynferðisbrota og lagaumhverfi sem að þeim snýr. Þá verður einnig tekið á málefnum hinsegin fólks.

Formenn Vinstri hreyf­ing­ar­inn­ar — græns fram­boðs, Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks­ins und­ir­rituðu stjórn­arsátt­mála nýrr­ar rík­is­stjórn­ar í Lista­safni Íslands fyrir skömmu. Jafnframt var farið yfir helstu atriði sáttmálans og þau kynnt almenningi.

„Það liggur fyrir að stór verkefni eru framundan. Þau felast ekki síst í því að ráðast í uppbyggingu innviða í  heilbrigðis-, mennta- og samgöngumálum og líka að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Það er forgagnsmál að kalla aðila vinnumarkaðarins að borðinu og halda áfram þeim samtölum sem við áttum í stjórnarmyndunarviðræðum,“ sagði Katrín meðal annars þegar sáttmálinn var kynntur. Hún sagði nýja stjórn ætla að taka höndum saman um þau lykilverkefni sem talin eru mikilvæg fyrir íslenska þjóð.

Hún sagði að í sáttmálanum kæmi fram einbeittur vilji til þess að efla Alþingi, ekki bara lögbundið hlutverk þess í þingsköpum, heldur einnig að það fái það rými sem það þarf.

Katrín sagði það forgangsverkefni Vinstri grænna í heilbrigðisráðuneytinu að móta skýra stefnu í heilbrigðismálum. Þá væru umhverfismálin flokknum hjartans mál og í sáttmálanum er gengið lengra í loftslagsmálum en kveðið er á um í Parísarsáttmálanum. Til að mynda með kolefnishlutleysi.

Katrín gaf svo Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins og verðandi fjármálaráðherra í nýrri stjórn, orðið. Hann sagði mörg málefnasvið fá gott rými í sáttmálanum og að honum þætti niðurstaðan endurspegla að þjóðin væri í sóknarhug. „Allir Íslendingar njóti góðs af, bæði hvað varðar félagslegt öryggi og almenna velsæld,“ sagði Bjarni meðal annars.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði sáttmálann óvenju ítarlegan og kraftmikinn. Hann benti á að við værum á óvenjulega góðum stað efnahagslega og því væru góð tækifæri til innviðauppbyggingar.

Hann boðaði stórsókn í mennta- og samgöngumálum og að horft yrði á landið sem eina heild í þeim málum. Þá yrði í tekið á málefnum ungs fólks á húsnæðismarkaði og þeim hópi yrði hjálpað. Þá yrði tekið markvisst skref til afnáms verðtryggingar.

Hann sagði frítekjumark aldraðra verða hækkað upp í 100 þúsund krónur frá og með næstu áramótum og tekið yrði á gjaldskrá varðandi tannlæknakostnað aldraðra og öryrkja. Þá yrðu gerðar úrbætur á almannatryggingakerfinu og gerð úttekt á kjörum þeirra tekjulægstu með það að leiðarljósi að finna úrbætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert