Ráðherrakapallinn opinberaður

mbl.is/KG

Skipting ráðuneyta nýrrar ríkisstjórnar og skipan ráðherra í ráðuneytin hefur nú verið staðfest.

Formaður Vinstri grænna, Katrín Jakobsdóttir, leiðir ríkisstjórnina í embætti forsætisráðherra, eins og áður hefur komið fram.

Utanþingsráðherra tekur eitt ráðuneyta VG

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, mun þá taka við embætti heilbrigðisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar sem ekki er á þingi, mun gegna embætti umhverfisráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon, starfandi forseti Alþingis, verður formlega kjörinn til að gegna áfram því embætti.

Sigríður, Guðlaugur og Þórdís áfram ráðherrar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, víkur úr forsætisráðuneytinu og yfir í fjármálaráðuneytið, þar sem hann hefur setið áður. Sigríður Á. Andersen, oddviti flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, gegnir áfram embætti dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður, situr áfram á stóli utanríkisráðherra.

Kristján Þór Júlíusson víkur þá úr embætti menntamálaráðherra og færist yfir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, þar sem hann mun gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í sama ráðuneyti situr um leið áfram Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir í embætti ferðamála- og iðnaðarráðherra.

Lilja verður menntamálaráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, mun gegna embætti samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra auk þess að vera samstarfsráðherra Norðurlanda.

Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, verður menntamálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, verður þá ráðherra félagsmála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert