Taka þarf á „bráðavanda“ sauðfjárbænda

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í nýrri ríkisstjórn.
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í nýrri ríkisstjórn. mbl.is/RAX

Nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, hlakkar til að takast á við þær áskoranir sem fylgja nýju starfi. Í samtali við mbl.is í Valhöll í hádeginu sagði hann meðal annars að taka þurfi á þeim vanda sem ríki meðal sauðfjárbænda.

„Ég er nú ekki enn kominn í starf, en það hinsvegar liggur alveg fyrir að það er ákveðinn bráðavandi sem steðjar að þessari stétt, sem að sem betur fer allir flokkar sem buðu fram til Alþingis töluðu um að takast á við í kosningabaráttunni,“ segir Kristján Þór.

Hann sagði nauðsynlegt að Íslendingar beini sjónum sínum að þeim miklu verðmætum sem felist í landbúnaði og sjávarútvegi.

„Þetta snýst ekki ekki bara um það að framleiða kjöt í landbúnaði og ekki bara það að draga fisk úr sjó í sjávarútvegi,“ segir Kristján Þór og lagði áherslu á að nauðsynlegt væri að tryggja góðan aðgang fjölbreyttra íslenskra matvælaafurða að mörkuðum erlendis.

Þá sagði Kristján Þór að bregðast yrði við nýlegum dómi EFTA-dómstólsins, um að þær innflutningstakmarkanir sem íslenska ríkið hefur sett á innflutnings ferskra matvæla væru ólöglegar, með einhverjum hætti. Ljóst væri að enginn vildi ógna matvælaframleiðslu hér á landi.

Komugjöld skoðuð í samráði við greinina

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir heldur áfram í starfi sínu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hún segir mörg verkefni á sínu borði og nefnir í því samhengi helst uppbyggingu á flutningskerfi raforku um landið.

 „Nú erum við auðvitað komin með nýjan stjórnarsáttmála og það er mikil áhersla á nýsköpunarmálin, sem er ákaflega gleðilegt,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is. „Í ferðamálunum eru mörg verkefni sem liggja fyrir og ég mun halda áfram að vinna að þeim.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Golli

Í stjórnarsáttmálunum kemur fram að fallið sé frá fyrri hugmyndum um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Þess í stað verði skoðað að taka upp komugjöld á ferðamenn.

Það hefur ekki verið útfært. „Neinei, enda segir í sáttmálanum að það verði gert í samstarfi við greinina,“ segir Þórdís og segir að skattlagning á ferðaþjónustuna sé ekki endilega það brýnasta í málaflokknum – önnur brýn verkefni liggi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka