Vilja draga úr eignarhaldi ríkisins

Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Stjórnarsáttmálinn kynntur. Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Íslenska ríkið verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun, en mun draga úr eignarhaldi sínu á fjármálafyrirtækjum miðað við það sem er í dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ríkisstjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins, sem var undirritaður núna fyrir hádegi í dag.

Kemur þar fram að eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum sé í dag það umfangsmesta í Evrópu og að leitað verði leiða til að draga úr því.

Einnig verður gerð hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem leggja á fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verði teknar um framtíð fjármálakerfisins.

Þá er komið inn á að eignarhald á stærri fjármálafyrirtækjum þurfi að vera gagnsætt. „Þótt mikilvægar umbætur hafi verið gerðar á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja er brýnt að gera betur. Eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum verður að vera gagnsætt,“ segir í sáttmálanum.

Íslenska ríkið á í dag hlut í öllum þremur stóru viðskiptabönkunum. Ríkið á Íslandsbanka að fullu, 97,9% í Landsbankanum og 13% í Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert