317 milljónir vegna flóða

Brúin yfir Steinavötn.
Brúin yfir Steinavötn. mbl.is/Eggert

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag, á grundvelli tillögu samráðshóps ráðuneytisstjóra, að veita þeim stofnunum sem unnið hafa að vöktun og viðbúnaði í kjölfar úrkomuveðurs, vatnavaxta og flóða á Suðaustur- og Austurlandi í lok september og byrjun október síðastliðinn aukin fjárframlög að upphæð 317,6 milljónir króna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Upphæðin fer til almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra, Vegagerðar ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Veðurstofu Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Lögreglustjórans á Suðurlandi og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þar af er kostnaður mestur hjá Vegagerðinni vegna tjóna á mannvirkjum þeirra eða 145 milljónir kr. og er áætlaður kostnaður Landgræðslunnar vegna brýnna viðgerða á varnarmannvirkjum á svæðinu 140 milljónir króna. Þá nemur kostnaður Landhelgisgæslunnar 14,1 milljónir króna en önnur fjárframlög eru lægri, að því er segir í tilkynningunni.

Þá samþykkti ríkisstjórnin einnig á fundi sínum í dag að fela umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að gera ítarlegt mat á þörf og kostnaði vegna frekari viðgerða á varnarmannvirkjum Landgræðslunnar á svæðinu þannig koma megi þeim í viðunandi horf til lengri tíma litið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert