Skúli Mogensen, stofnandi og eigandi Wow air, segir félagið stefna á að hefja flug milli Asíu og Íslands á komandi misserum. Fyrirtækið vinni nú hörðum höndum að því að velja heppilega áfangastaði sem henti inn í leiðakerfi þess.
Þetta staðfesti hann í samtali við blaðamann Morgunblaðsins á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, í gærmorgun.
„Nýjar, langdrægari og sparneytnari vélar gera okkur kleift að stefna vélum okkar á þessa áfangastaði. En þessar nýju öflugu vélar eru einnig ákveðin ógn við samkeppnisstöðu Íslands. Þær opna á þá möguleika að fljúga beint milli allra stærstu flugvalla Evrópu og Bandaríkjanna og farþegar taka yfirleitt beint flug fram yfir tengiflug ef það er mögulegt og á svipuðu verði.“
Hann bendir á að með því gæti Ísland að nokkru leyti farið úr þeirri alfaraleið sem það stendur í um þessar mundir og hefur lengi gert.