Kjör starfsmanna sem störfuðu á byggingarvinnustaðnum við Grensásveg 12 voru undir lágmarkslaunum og ekki hefur verið sýnt fram á að þeir hafi haft kjarasamningsbundin réttindi. Þá er ekki til staðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum á staðnum. Þetta segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, sambands iðnfélaga.
Vinnueftirlitið lokaði vinnustaðnum fyrir um tveimur vikum eftir að í ljós kom að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur. Þá hafði Vinnueftirlitinu ekki verið tilkynnt um verkið, sem er grundvallaratriði þegar unnið er að byggingu stærri mannvirkja. Skoðunarskýrsla Vinnueftirlitsins og fyrirmæli um úrbætur voru sendar til Úr verktaka ehf. en ekki var brugðist við með fullnægjandi hætti.
Við nánari eftirgrennslan Samiðnar hefur einnig komið í ljós að ekki er til staðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.
Hraunbrekka ehf. er sá verktaki sem ber ábyrgð á verkinu en sömu eigendur eru að því fyrirtæki og Úr verktökum ehf. Munu einhverjir starfsmannanna hafa unnið fyrir bæði fyrirtækin.
Samiðn fór tvisvar í vinnustaðaferð á Grensásveg 12 til að kalla eftir launaupplýsingum starfsmanna og réttindum, en það var hluti af átaki sem nýlega var hrint af stað hjá sambandinu. Upplýsingarnar sem fengust voru ekki fullnægjandi og þótti tilefni til að skoða vinnustaðinn frekar. Í kjölfarið var sent erindi á verktakann sem var á staðnum og Reykjavíkurborg, sem hefur fest kaup á 24 íbúðum í húsinu. Í kjölfarið fundaði Þorbjörn með verktakanum.
„Ég átti fund með verktakanum og lögmanni hans í síðustu viku. Þegar þeim fundi lauk þá stóðu málin þannig að þeir voru ekki búnir að skila okkur launaseðlum eða sýna fram á að þeir starfsmenn sem þarna voru hefðu nein réttindi. Þau laun sem þeir upplýstu okkur um voru undir lágmarkslaunum. Þeir lofuðu nú að laga það og við munum ganga á eftir því þegar verkið fer aftur af stað,“ segir Þorbjörn, en ekki er ljóst hvenær vinnustaðurinn verður opnaður aftur. Þrátt fyrir að staðnum hafi verið lokað mega verktakar gera úrbætur, en Þorbjörn segir ljóst að ganga þurfi frá ansi mörgu áður en hægt verði að opna vinnustaðinn á ný.
„Staðan er einfaldlega sú að Vinnueftirlitið er ekki búið að aflétta lokuninni á vinnustaðnum og við nánari grennslan kom í ljós að þær breytingar sem eru í gangi í húsnæðinu við Grensásveg 12 hafa ekki fengið leyfi frá byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar.“
Þorbjörn bendir á að til að fá byggingarleyfi þurfi að skila inn öllum teikningum að verkinu og byggingarstjóri þurfi að vera til staðar. Ekki eigi að byrja á verki fyrr en þetta tvennt er frágengið.
„Við munum hins vegar mæta strax á staðinn þegar hann verður opnaður og ganga eftir því að fá betri staðfestingu á launakjörum og réttindum.“
Grensásvegur 12 er atvinnuhúsnæði sem verið er að breyta að hluta til í íbúðarhúsnæði og hefur Reykjavíkurborg gert kaupsamning um kaup á 24 íbúðum í húsinu. Til stendur að þær verði afhentar borginni 1. apríl 2018. Verða þær svo leigðar til umsækjenda hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Reykjavíkurborg í síðustu viku hefur borgin enga aðkomu að verkefninu aðra en þá að búið er að gera kaupsamning um íbúðirnar sem greiddar verða við afhendingu. „Reykjavíkurborg hefur enga aðkomu að verkefninu eða vinnuaðstæðum á staðnum,“ sagði í svari borgarinnar til mbl.is.
Þorbjörn segir Samiðn hins vegar líta svo á að borgin tengist verkinu með ákveðnum hætti og því hefur borginni verið gert viðvart um þau brot og vankanta sem komið hafa upp í tengslum við framkvæmdirnar.
„Það er búið að selja Reykjavíkurborg 24 íbúðir sem tekið verður við fullkláruðum. Þeir tengjast þessu auðvitað af því þeir eru að kaupa afurðina.“ Samiðn hefur enn ekki fengið nein viðbrögð frá borginni vegna málsins, að sögn Þorbjörns.