„Ástandið var slæmt fyrir og maður getur ekki ímyndað sér hvernig það er núna. Þetta er ömurlegt, þetta er hryllingur,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Hjónin Nasr Mohammed Rahim og Sobo Answar Hasan voru flutt úr landi snemma á fimmtudagsmorgun, ásamt Leo, 18 mánaða syni sínum. Þau voru send með flugi til Frankfurt og nú dvelja þau hjá kunningja Nasr en þau komu sér hjá því að vera send í stórar flóttamannabúðir.
„Þau voru í haldi yfirvalda í Þýskalandi í töluverðan tíma eftir að þeim var flogið út. Þaðan átti að vísa þeim í flóttamannabúðir,“ segir Sema en hún telur líklegra en ekki að fólkinu verði vísað til Íran eða Írak frá Þýskalandi. Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með íraskt ríkisfang og Sobo með íranskt. Leo er hins vegar fæddur á flótta og því ríkisfangslaus.
Nasr sagði í viðtali við mbl.is í október að honum hafi borist líflátshótanir og því óttist fjölskyldan að snúa aftur til heimalanda sinna.
„Maður getur ekki ímyndað sér hvernig þeim líður. Þau fóru strax í felur og við vissum að þetta yrði svona. Við vorum búin að reyna að segja yfirvöldum að þetta myndi gerast,“ segir Sema. Hún hefur ekki heyrt í Nasr eða Sobo í dag en heyrði lítillega í þeim í gær.
Hún segir að það hafi verið að vinna í máli fjölskyldunnar þegar henni var vísað brott héðan. Sema bendir á að íslensk yfirvöld hafi ekki fengið staðfestingu á því að þýsk yfirvöld myndu ekki vísa þeim áfram úr landi.
„Þegar Dyflinnarreglugerðin er notuð þarf að senda viðtökuríkinu beiðni um að taka á móti fólkinu, sem þau síðan samþykkja. Þýsk yfirvöld samþykktu það ekki innan gefins tímaramma og það var eins og þögninni væri tekið sem samþykki,“ segir Sema og bætir við að reglan um „non-refoulement“ hafi mögulega verið brotin.
Samkvæmt henni á ekki að vísa á fólki á brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. „Það var ekki gert og þarna er verið að brjóta alþjóðlega samninga. Þetta er ein af þessum grundvallarreglum. Slík mál hafa endað fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og ríki hafa verið dæmd sek. Við förum með þetta eins langt og hægt er.“
Sema telur að reglur hafi verið brotnar í fluginu þar sem flogið var með þau úr landi á fimmtudagsmorgun en það var í almennu farþegaflugi til Frankfurt. „Hún var í handjárnum alla ferðina og þau sátu ekki saman. Þau voru inni í vélinni þegar aðrir farþegar koma inn og þegar vélin er í þann mund að leggja af stað held ég að hún fái taugaáfall,“ segir Sema og bætir við að Sobo hafi grátið og algjörlega farið úr jafnvægi.
„Við vissum að þetta myndi gerast og því var reynt að koma í veg fyrir að þau færu í þessa vél. Það var alveg hætta á því að allt myndi fara til helvítis og það gerði það. Allt í einu snarþagnaði hún en við vitum ekki hvernig stendur á því. Hún var meðal annars handjárnuð í ferðinni og fjölskyldan aðskilin og það ætti að stangast á við allar verklagsreglur sem stoðdeild lögreglustjóra og Útlendingastofnun vinna eftir.“