Engin skýring fannst á banaslysinu

Grampa Dave lést í ágúst.
Grampa Dave lést í ágúst. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Engin skýring fannst á tildrögum banaslyssins þegar Kanadamaðurinn David Frederik McCord, eða Grampa Dave, féll til jarðar með svifvæng í Reynisfjöru 13. ágúst. „Þetta er eitt af þessum slysum sem verða sem við höfum ekki skýringu á hvað olli,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, en rannsókn málsins er lokið.

Frá Reynisfjöru.
Frá Reynisfjöru. mbl.is/Eggert

Ekkert óeðlilegt sást á myndböndum

Hann segir að ekkert óeðlilegt hafi komið fram við rannsókn á svifflugvængnum og engin merki hafi fundist við krufningu um veikindi sem hafi leitt til slyssins.

„Þetta er eins slysalegt og það getur orðið,“ segir Oddur.

Veðrið var gott þennan dag og ekkert óeðlilegt sást á myndböndum, sem voru skoðuð, af vettvangi.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Sérfræðingar skoðuðu búnaðinn 

Sjónarvottar sem rætt var við höfðu ekkert fram að færa sem gat varpað ljósi á tildrög slyssins en fjöldi fólks var í fjörunni þegar McCord féll þar niður. 

Búnaður Kanadamannsins var sendur til tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fékk hún sérfræðinga til aðstoðar við rannsóknina á honum.

Grampa Dave á flugi um loftin blá.
Grampa Dave á flugi um loftin blá.

Grampa Dave, sem var um sjötugt, var mik­ill áhugamaður um svif­vængja­flug og í ítarlegu viðtali við Sunnu­dagsút­gáfu Morg­un­blaðsins í byrj­un júlí sagði hann íþrótt­ina hafa breytt lífi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert