Hæstiréttur hefur staðfest 12 mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Malínu Brand fyrir fjárkúgun.
Málflutningur í máli Malínar í Hæstarétti fór fram í lok nóvember en hún áfrýjaði dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl.
Frétt mbl.is: Málflutningur í máli Malínar í Hæstarétti
Malín var ákærð og dæmd ásamt systur sinni, Hlín Einarsóttur. Voru þær fundnar sekar um að hafa kúgað 700 þúsund krónur út úr karlmanni sem þær hótuðu að kæra fyrir nauðgun. Þá voru þær einnig fundnar sekar um tilraun til fjárkúgunar gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra.
Frétt mbl.is: „Þetta er auðvitað útópískt rugl“
Eftir að fjárkúgunarmálið gegn Sigmundi Davíð kom upp kærði fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar hana fyrir að hafa í apríl 2015 í félagi við systur sína haft af sér 700 þúsund krónur með hótunum um að leggja annars fram kæru til lögreglu um að hann hefði nauðgað henni.
Dómur systranna er samhljóðandi, þær eru dæmdar í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 mánuði skilorðsbundið. Hlín áfrýjaði ekki dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar en það gerði Malín.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að systurnar þurfi að greiða fyrrverandi samstarfsmanni Hlínar 1,3 milljónir króna í skaðabætur.
Hér má lesa dóminn í heild sinni.