„Var valin vegna þess að ég er kona“

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segist hafa glímt …
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segist hafa glímt við ansi margar árásir í gegnum árin en sýruárás á heimili hennar árið 2009 hafi verið sú svæsnasta. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Lög­regla og önn­ur yf­ir­völd brugðust þegar sýru­árás var gerð á heim­ili Rann­veig­ar Rist, for­stjóra Rio Tinto á Íslandi. Það er henn­ar mat á at­b­urðunum sem áttu sér stað sum­arið 2009. Þá seg­ir hún að árás­in hafi beinst gegn henni vegna kyns henn­ar.   

Rann­veig rifjaði upp árás­ina og eft­ir­mála henn­ar í viðtali í Kast­ljósi á Rúv í kvöld.

„Þetta var í ág­úst­mánuði 2009 og við vor­um í sum­ar­fríi öll fjöl­skyld­an og vor­um heima. Við för­um niður og sjá­um að það er búið að setja mikið af grænni máln­ingu á húsið og inn­gang­inn og það stóð: hér býr ill­virki. Þetta var málað á vegg­ina og sér­stak­lega und­ir glugg­ana þar sem börn­in sváfu. Þannig að svo­lítið eins og það væri búið að stúd­era húsið,“ sagði Rann­veig.

Fékk sár í and­litið vegna sýrunn­ar

Rann­veig fann skrýtna lykt fyr­ir utan heim­ilið en gerði sér ekki grein fyr­ir í fyrstu að sýru hafði verið skvett yfir bíl henn­ar. „Ég opnaði bíl­inn vegna þess að hann var all­ur út í ein­hverju, það var svona eins og lakkið væri að hluta til upp­leyst, en það var allt þurrt svo við sáum ekki strax að þetta væri sýra. Ég opnaði bíl­inn og í hurðarfals­inu var greini­lega vatn, þannig að það var vatns­blönduð sýra sem var í fals­inu, það komu drop­ar í and­litið á mér og ég fékk sár af þeim. Ég var hepp­in að fá þá ekki í aug­un. En ég fékk sár í and­litið sem ég átti í dá­lítið lengi, þannig að þetta var býsna al­var­leg árás.“

Rann­veig sagði að það hafi verið auðséð að árás­in beind­ist gegn henni. „Það sáu það all­ir í áliðnaðinum að ég var val­in vegna þess að ég er kona. [...] ég var eina kon­an sem stýrði ál­fyr­ir­tæki og þess vegna varð ég sjálfsagt fyr­ir val­inu.“

Rann­veig kærði árás­ina en málið var fellt niður í tvígang. Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, sem greint var frá í Kast­ljósi, tókst ekki að afla nægra sönn­un­ar­gagna til að sýna fram á hverj­ir voru að verki á heim­ili Rann­veig­ar og því var málið látið niður falla.

Skrýtið að árás­in hafi ekki verið tek­in al­var­lega

Þegar hún lít­ur til baka seg­ir hún að al­menn­ur ótti hafi verið í þjóðfé­lag­inu á þess­um tíma. „Það er mjög skrýtið að svona árás skuli ekki vera tek­in mjög föst­um tök­um og al­var­lega. Mér fannst mjög merki­legt að það var stór sam­koma hér nokkr­um árum síðar þar sem var verið að mót­mæla sýru­árás­um í fjar­læg­um lönd­um, en það skyldi eng­inn mót­mæla þegar slík árás var gerð hér.“

Rann­veig seg­ist hafa glímt við ansi marg­ar árás­ir í gegn­um árin en sýru­árás­in hafi verið sú svæsn­asta. „Þetta var mjög óvænt og mikið högg. Það var gasa­legt að eiga við þetta eft­ir á, gagn­vart fjöl­skyld­unni, vin­um og ná­grönn­um.“

Áfallið sem Rann­veig upp­lifði tengd­ist einnig viðbrögðunum, eða skorti á þeim, eft­ir árás­ina. „Þetta var mikið áfall og áfall að sjá að það var eng­inn sem stóð upp og stöðvaði þetta eða gerði aðgerðir í að finna út hvernig þetta gat gerst og tók á því. Það fannst mér líka vera tals­vert áfall.“

Rann­veig tel­ur að mik­il­vægt sé að þjóðfé­lagið sam­mæl­ist um að árás­ir líkt og hún varð fyr­ir verði ekki liðnar. „Við sem þjóðfé­lag ætt­um að reyna að sam­ein­ast um það að það er ekki í lagi að beita árás­um eða sýru, eða að fara heim til fólks. Það ætti að vera grund­vall­ar­sam­komu­lag í þjóðfé­lag­inu að svona ætti ekki að vera liðið.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert