Vona að áhyggjurnar reynist óþarfar

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir utanríkisráðherra Norðurlandanna hafa rætt yfirlýsingu …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir utanríkisráðherra Norðurlandanna hafa rætt yfirlýsingu Trumps á óformlegum fundum sínum. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra Íslands hefur rætt yfirlýsingu Donald Trumps Bandaríkjaforseta, sem í gær viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels, við utanríkisráðherra Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar.

„Á þessum óformlegu fundum þá ræddu menn málin og stöðuna og síðan vona menn bara að áhyggjurnar reynist óþarfar,“ segir Guðlaugur Þór. „Menn hafa engu að síður áhyggjur af því að yfirlýsing Trumps geti haft neikvæð áhrif á viðkvæmt ástand og þá m.a. á friðarviðræðurnar. „Það er vissulega hætta á því að upp úr sjóði,“ bætir hann við.

Guðlaug­ur Þór tjáði sig í gær um þá ákvörðun Banda­ríkja­for­seta, að viður­kenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísra­els og að sendiráð Bandaríkjanna yrði fært frá Tel Aviv til Jerúsalem. Sagði hann ákvörðunina valda áhyggj­um og ákveðnum von­brigðum. 

Spurður hvort Ísland hafi hug á að fordæma ákvörðun Bandaríkjastjórnar segir hann Ísland hafa sagt sína skoðun eins og þær þjóðir sem að við berum okkur saman við. „Við hvetjum þó líka til stillingar og að ekki verði stofnað til ofbeldis.“

Ýmislegt jákvætt er þó líka að finna í yfirlýsingu Bandaríkjaforseta að sögn Guðlaugs Þórs. „Meðal annars  að það sé á endanum Palestínu og Ísraels að skera úr um málefni Jerúsalem sín á milli og að Bandaríkin muni styðja friðarviðræður og hverja þá lausn sem Ísrael og Palestína komi sér saman um, þar með talið tveggja ríkja lausnina.“

Hann segir ekki standa til af hendi Norðurlandaþjóðanna að senda frá sér sameiginlega ályktun um málið á næstunni. „Það verður rætt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og  það er nú sá vettvangur þar sem best er að ræða þessi mál,“ sagði Guðlaugur Þór, en boðað var til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um málið á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert