Haförninn kominn í Húsdýragarðinn

Haförninn hefur náð miklum bata frá því að hann var …
Haförninn hefur náð miklum bata frá því að hann var fangaður máttfarinn í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er allt annað að sjá fuglinn núna en þegar við náðum honum fyrst. Hann hefur náð að safna kröftum með hverjum degi,“ seg­ir Snapchat-stjarn­an Snorri Rafns­son sem fangaði í síðustu viku haförn í ná­grenni Ólafs­vík­ur. Haförninn er nú kominn í hendur starfsmanna Húsdýragarðsins. 

Snorri Rafns­son, sem einnig er þekkt­ur sem Varg­ur­inn, og faðir hans höfðu í fjórar vikur fylgst með haferni í ná­grenni Ólafs­vík­ur sem virt­ist held­ur mátt­far­inn. Eftir nokkrar tilraunir tókst þeim að fanga haförninn og í dag afhentu þeir Húsdýragarðinum hann.

„Ég er ánægður með að hann sé kominn á góðan stað hjá góðu fólki þar sem hann fær góðan mat og stærra búr. Nú getur hann æft þá vöðva sem hann þarf að æfa,“ segir Snorri. „Þessi fugl mun fljúga og veiða sér til matar þó að það geti tekið smá tíma.“

Fyrr í vikunni kom Hjalti Viðars­son, dýra­lækn­ir í Stykk­is­hólmi, og skoðaði fugl­inn en ekki fannst neitt að honum. Snorri segir að mögulega skýring á máttleysi dýrsins hafi komið í ljós.

„Ég heyrði í morgun að bílstjóri olíuflutningabíls hefði sagst hafa séð haförn í æti við veginn og að hann hafi flögrað upp í loftið, farið í spegilinn og dansað með hliðinni á bílnum. Það getur verið að hann hafi vankast við það.“

Snorri telur hins vegar að eitthvað hafi verið að honum fyrir. „Ég var búinn að fylgjast með þessum fugli í fjórar til fimm vikur og nálgast hann nokkrum sinnum. Ég sá allan tímann að það var eitthvað að honum. Það getur verið að þetta hafi eitthvað að gera með hræið sem hann var að éta í vegakantinum. Hafernir gera það venjulega ekki.“

Haförninn er við ágæta heilsu og er farinn éta óstuddur. Snorri segir að næstu vikur snúist um að byggja hann upp. „Þetta gerist ekki á einni eða tveimur vikum. Dýralæknarnir meta stöðuna eftir ákveðinn tíma, hvort að hann sé orðinn tilbúinn að vera sleppt, og við fáum að fylgjast með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert