Heildarfjárheimild til forsætisráðuneytisins fyrir árið 2018 er áætluð 1.560 milljónir króna og hækkar um 493,6 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum.
Meðal annars er gert ráð fyrir 150 milljóna króna útgjöldum til að mæta undirbúningskostnaði vegna framkvæmdasamkeppni viðbyggingar fyrir forsætisráðuneytið á baklóð Stjórnarráðshússins auk undirbúningskostnaðar vegna skipulagssamkeppni um uppbyggingu á Stjórnarráðsreit.
Þá eru áætlaðar 105 milljónir, þar af 20 milljónir tímabundið í eitt ár, til að fylgja eftir áherslum ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að til staðar verði í forsætisráðuneytinu formlegur vettvangur samhæfingar áherslna stjórnarsáttmála innan Stjórnarráðsins sem hafi stöðuga langtímayfirsýn yfir stöðu allra verkefna sem tengjast meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar og umboð til eftirfylgni með þeim.
Gert er ráð fyrir 85 milljóna króna framlagi til að fjármagna skuldbindingar og vinna áfram viðamikil forgangsverkefni fyrri ríkisstjórnar. Hér er einkum átt við endurskoðun á ramma peningastefnu og stofnun þjóðarsjóðs sem voru hluti af stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar.
Gert er ráð fyrir 65 króna fjárframlagi vegna viðburða, sem forsætisráðuneytið ber ábyrgð á í tengslum við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. 30 milljónum verður varið til að lagfæra heimreið og heimasvæði á Bessastöðum og 15 milljónum til undirbúningsvinnu, tillögugerð og hönnun til að bæta aðgengi fatlaðra á Bessastöðum. Þá er áætlað að verja 25 milljónum í endurbætur og viðhald á húsnæði, eignum og jörð á Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Einnig er gert ráð fyrir að verja 17,5 milljónum króna til að styrkja öryggismál í Stjórnarráðinu í samræmi við tillögur embættis ríkislögreglustjóra, að því er segir í fjárlagafrumvarpinu.