„Gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og 5. þingmaður norðausturkjördæmis, byrjaði ræðu sína á að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og fagnaði því að nú sæti kona í forsæti öðru sinni. Sagðist hann vona að það teldist ekki til tíðinda í náinni framtíð.

Hann sagði nokkur ágætis fyrirheit í nýjum sáttmála. „Metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, lenging fæðingarorlofs og átak í samgöngumálum.“

Logi sagði fyrstu skref ríkisstjórnarinnar benda til lítils annars en að nú eigi allt að falla í ljúfa löð af því að nákvæmlega þessir flokkar séu ríkisstjórn. „Öllum óskum minnihlutans var hafnað en með sáttinni vísað í þverpólitískar nefndir, meðan annars í stjórnarskrármálinu og um útlendingalög.“

„Þá þarf nú ekkert sérstakt hugmyndaflug til að átta sig á því sú tilhögun varpar fyrst og fremst ljósi á óleystan ágreining ríkisstjórnarflokkanna.“

Sagði hann forsætisráðherra freista þess að réttlæta stjórnarsamstarfið í ræðu sinni. „Það sem einkum hefur skilið að þessa flokka að er afstaða þeirra til skattkerfisins og viðhorf til jöfnuðar. Í stjórnarsáttmálanum felst sú málamiðlun að Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Hún felst því aðallega í því að gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði.“

„Traustið sem hæstvirtum forsætisráðherra er svo tíðrætt um í ræðunni er nærtækast að endurheimta með baráttu gegn þeirri spillingu, leyndarhyggju og frændhygli sem varð tveimur síðustu ríkisstjórnum að falli. Það hyggjast Vinstri græn gera með því að leiða aðal leikarana úr tveimur síðustu harmleikjum á sviðið á ný; meira eða minna í sömu hlutverkum,“ sagði Logi.

Hann sagði kaldhæðni að núverandi fjármálaráðherra leiddi baráttu gegn skattsvikum og undanskotum, og vonbrigði að dómsmálaráðherra sem nýlega tók flokkinn sinn fram yfir almenning skyldi leidd aftur til valda, og að dapurlegt væri að treysta henni fyrir málefnum flóttamanna.

„Þetta samstarf mun ekki endurreisa traust á íslenskum stjórnmálum.“

Logi sagði einnig á þessu fordæmalitla hagvaxtarskeiði ætti baráttan fyrir jafnrétti kynjanna og gegn misskiptingu einmitt að vera meginviðfangsefni stjórnvalda.

„Á toppi hagsveiflu er besti tíminn til þess að auka tekjur og jafna kjörin. Það er auk þess skynsamlegt, til þess að fresta og milda næstu niðursveiflu, lækka vexti og halda aftur af verðbólgu. Ríkisstjórnin ætlar hins vegar að setjast í sófann, éta úr ísskápnum og hirða ekki um að fara út og draga björg í bú. Þeim finnst líklega nóg vera til en skilja afleiðingar eftir fyrir næstu ríkisstjórn.“

„Herra forseti. Bilið milli fátækra og ríkra mun halda áfram að aukast, undir forsæti sósíalista. Einhvern tímann hefðu það þótt tíðindi.“

Að lokum vakti Logi athygli á óhuggulegum andstæðum íslensks samfélags sem birtast á degi hverjum, og ein dæmisaga hans hljómaði svo: „Útsjónarsamur auðkýfingur andar léttar í lok dags eftir að hafa komið peningum fyrir á Panama en lítill strákur fær ekki bestu mögulegu lyf vegna þess að það vantar tugi milljarða króna inn í samneysluna.“

„Kæru landsmenn við getum gert miklu. Góða aðventu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka