Hámark afsláttar lækkar um 250 þúsund

Bílaleigubílar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Bílaleigubílar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Baldur Arnarson

Uppi eru áform um að afnema afslátt bílaleiga af vörugjöldum á ökutæki umfram það sem gildir um fólksbifreiðar almennt, að því er segir í nýjum fjárlögum.

Áformin snúast um að ívilnunin verði afnumin í tveimur jöfnum áföngum þannig að hámark ívilnunar á hvern bíl lækki úr 500 þúsund krónum í 250 þúsund í ársbyrjun 2018 og að hún verið að fullu afnumin í ársbyrjun 2019.

Áætlað er að tekjur verði um þremur milljörðum meiri en í núverandi kerfi þegar afnám afsláttarins hefur tekið gildi í ársbyrjun 2019, að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

Framlenging afsláttarins og helmingslækkun hámarksins um næstu áramót lækkar áætlaðar tekjur af gjaldinu um 1,5 milljarða króna á næsta ári samanborið við tekjuáætlun fjármálaáætlunar sem samþykkt var í júní.

Nái framangreind áform fram að ganga munu bílaleigur njóta áfram um 1,5 milljarða króna ívilnunar á næsta ári, sem er ein tegund af skattastyrk á málefnasviði ferðaþjónustu.

Undanþága vegna rafmagns-, vetnis- og tvinnbíla

Einnig er stefnt að því að undanþága frá virðisaukaskatti við innflutning og sölu nýrra rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiða, sem gilt hefur frá árinu 2013, verði fest í sessi næstu þrjú árin.

Samanlögð fjárhæð ívilnunarinnar hefur aukist mjög undanfarið vegna fjölgunar slíkra bíla og er gert ráð fyrir að hún nemi rúmlega 2 milljörðum króna árið 2018.

Strax á næsta ári verður farið í greiningu á því hver áhrif umræddrar ívilnunar hafa verið í því skyni að meta þörfina fyrir framhald hennar næstu árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert