Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, flutti sína fyrstu ræðu í ræðustól Alþingis og var þakklát fyrir það tækifæri sem kjósendur veittu henni. Hún sagði margt gott og kjarnmikið í nýjum stjórnarsáttmála, en allt of fátt sem hönd væri á festandi.
Þau jöfnu tækifæri sem nefnd væru í stjórnarsáttmálanum væru því miður aðeins fyrir suma. Hún væri enginn sérfræðingur í lestri fjármálafrumvarpa, en í dag hefði þingið fengið að gjöf frá fulltrúum öryrkja spilið Skerðingu, sem enginn vildi spila. Fjárlagafrumvarpið undirstriki það sem hún óttaðist, að lítið sem ekkert ætti að gera í kjarabætum fyrir öryrkja.
Hún vill að þeir 63 þingmenn sem sitja á þingi séu tilbúnir að mætast á miðri leið til að útrýma fátækt, en það sé þjóðarskömm að hér skuli ríkja slík fátækt að tugir manna þyrftu að búa á tjaldstæði í Laugardal.
Hún sagðist fagna því að frítekjumark eldri borgara hefði verið hækkað, en að það væri ekki nógu mikið. Enginn reiknaði út hvað geti skilað sér til baka með sköttum frá öryrkjum og öldruðum.
Að lokum sagðist hún vona að allt þetta góða fólk sem kosið hefði verið af þjóðinni meinti virkilega það sem það segði og að ríkisstjórn myndi standa við það sem hún boðaði. Hún er bjartsýn og brosandi og vill gefa ríkisstjórn tækifæri til að standa við stóru orðin.