Telur almenning illa svikinn

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samfylkingin gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Sé þetta fjárlagafrumvarp borið saman við fjárlagafrumvarpið, sem sú ríkisstjórn sem sprakk í haust lagði fram, kemur í ljós að einungis er gerð 2% breyting á útgjöldum ríkisins og nemur breytingin aðeins 0,64% af landsframleiðslu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Þar segir enn fremur að engin merki séu um stefnubreytingu eða sérstakar tillögur sem ætla mætti að kæmu vegna áhrifa velferðarflokks innan ríkisstjórnarinnar. Innkoma VG í ríkisstjórn og þeirra áhrif á ríkisfjármálin séu því afar takmörkuð.

Samfylkingin gagnrýnir sérstaklega skort á velferðaráherslum í fjárlagafrumvarpinu.

Margliða gagnrýni

„Í fyrsta lagi verða barnabætur nákvæmlega jafnháar og var í fjárlagafrumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar sem VG gagnrýndi harðlega fyrir kosningar. Sama má segja um fæðingarorlofið. Engin stefnubreyting er í málefnum fjölskyldufólks með nýrri ríkisstjórn,“ segir í tilkynningunni.

„Í öðru lagi er engin innspýting í vaxtabótakerfið og dragast vaxtabætur meira að segja saman um 2 milljarða milli ára. Því til viðbótar er engin aukning í húsnæðismálin sem eru þó eitt brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda.“

Í þriðja lagi er bent á að fá merki sé að finna um frekari fjárfestingu í menntamálum þjóðarinnar. Í fjórða lagi fái heilbrigðismálin einungis um 0,35% af tekjum ríkisins og grunnlífeyrir eldri borgara hækki ekki.

Áfram er talið upp en Samfylkingin bendir á í fimmta lagi að 15 milljarða vanti í samgöngumálin sem fái þó einungis 1,6 milljarðs aukningu. 

„Í sjötta lagi eru einungis 380 milljónum varið í úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Ríkisstjórnin er að verja aðeins 0,04% af tekjum sínum í þetta mikilvæga verkefni sem allt samfélagið hefur kallað eftir að stjórnvöld setji í forgang.“

Í sjöunda lagi er gagnrýnt að átak ríkisstjórnar í loftslagsmálum fái 20 milljónir króna. Ríkisstjórnin sé auk þess að falla frá 2 milljörðum í tekjum af fyrirhugaðri hækkun á kolefnisgjaldi.

Órafjarri loforði VG

„Í áttunda lagi eru tekjuleiðir stjórnvalda vanræktar verulega á hátindi hagsveiflunnar og má þar t.d. nefna að enn verða veiðigjöld einungis um 1,2% af tekjum ríkisins og engin aukin gjaldtaka af erlendum ferðamönnum,“ segir í tilkynningunni.

Fjárlagafrumvarpið er því að mati Samfylkingarinnar langt frá því að svara kalli landsmanna um frekari fjárfestingu í innviðum samfélagsins og órafjarri því sem Vinstri grænir lofuðu fyrir kosningar. „Það er ljóst að barnafólk, milli- og lágtekjufólk og í raun allur almenningur er illa svikinn af fjárlagafrumvarpi Katrínar Jakobsdóttur. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert