Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hefur svarað bréfi velferðarráðuneytisins frá 21. nóvember. Hann svarar þar fyrir fjölmargar kvartanir frá barnaverndarnefndum höfuðborgarsvæðisins í hans garð.
Margrét Erlendsdóttir, upplýsingafulltrúi velferðarráðuneytisins, staðfesti við mbl.is að svar hefði borist frá Braga í hádeginu.
Bragi vildi ekki tjá sig um innihald bréfsins þegar leitað var eftir því. „Ráðuneytið verður að taka við þessu og þeir eiga næsta leik,“ sagði Bragi.
Barnaverndarnefndirnar sendu kvartanirnar til velferðarráðuneytisins og áttu fulltrúar þeirra fund í ráðuneytinu vegna málsins. Í framhaldi af því var Barnaverndarstofu og forstjóra sent bréf þar sem óskað var svara.