Gert er ráð fyrir því, að ýmis lögbundin gjöld, tengd skattkerfinu, hækki um 2% um áramótin í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar. Þetta á meðal annars við um útvarpsgjald til Ríkisútvarpsins, sem hækkar úr 16.800 krónum í 17.100 krónur, samkvæmt því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.
Þá er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki um 2% árið 2018, úr 10.956 krónum í 11.175 krónur. Olíugjald, kílómetragjald og sérstakt kílómetragjald mun hækka um 2% sem og almennt og sérstakt vörugjald af bensíni. Bifreiðagjald mun einnig hækka um 2%. Lögð verður til 50% hækkun á kolefnisgjaldi 1. janúar 2018 sem er liður í aðgerðum stjórnvalda gegn losun kolefnis út í andrúmsloftið.
Lagt er til að áfengisgjald og tóbaksgjald hækki árið 2018 um 2% í samræmi við áætlaðar verðlagsbreytingar.