Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákæru vegna morðsins á Sanitu Braune, 44 ára gamalli konu frá Lettalandi sem myrt var á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur 21. september. Maður sem grunaður er um að hafa orðið Braune að bana hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari hjá embættinu og saksóknari í málinu, staðfestir við mbl.is að ákæran hafi verið gefin út og að maðurinn sé ákærður fyrir manndráp. Er um að ræða 211. grein almennra hegningarlaga, en refsing við slíku broti er fangelsi ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.
„211. gr. Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Þar sem ákæran hefur ekki enn verið birt vildi Kolbrún ekki tjá sig nánar um innihald ákærunnar.
Rannsókn lögreglu lauk í síðustu viku og var málið þá sent embætti héraðssaksóknara. Atburðarásin liggur fyrir að mestu leyti. Hinn grunaði hefur játað að hafa slegið til Sanitu og veitt henni höfuðhögg með slökkvitæki.