Lögregla er engu nær að upplýsa árás þegar ráðist var á 10 ára stúlku í Garðabæ síðdegis á mánudag. Stúlkan náði að sleppa en talið er að gerandinn sé piltur á aldrinum 17-19 ára.
„Við erum ekki búnir að loka málinu,“ segir Helgi Gunnarsson lögreglufulltrúi við mbl.is. Engar handhægar vísbendingar hafi þó komið fram sem gætu hjálpað lögreglu við að leysa málið og hún hafi því lítið til að byggja á.
Stúlkan sá ekki framan í árásarmanninn vegna þess að hann var með hettu sem huldi að mestu andlit hans.
Maðurinn greip stúlkuna hálstaki, tók um munninn á henni og dró hana afsíðis. Tvær vinkonur stúlkunnar hlupu heim eftir hjálp en önnur þeirra sneri fljótt til baka. Árásarmaðurinn sleppti stúlkunni þegar hann sá vinkonu hennar koma hlaupandi að honum.