Dugar skammt til að standa undir síaukinni þjónustuþörf

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Jón Pétur

Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir að það séu mikil vonbrigði að það fjármagn sem sé eyrnamerkt sjúkrahúsinu í fjárlagafrumvarpinu sé óbreytt upphæð frá frumvarpinu sem var lagt fram í haust, eða 47 milljónir kr.

„Miðað við það fjármagn sem eyrnamerkt er Sjúkrahúsinu á Akureyri í fjárlagafrumvarpi 2018 er raunaukning til almenns rekstrar 47 mkr. (um 0,6%) sem er óbreytt upphæð frá frumvarpinu sem lagt var fram sl. september. Þetta eru okkur mikil vonbrigði,“ skrifar hann á vef sjúkrahússins.

Hann segir að sú upphæð dugi skammt til að standa undir síaukinni þjónustuþörf sem verið hafi á bilinu 2-4% árlega.

„Einkum er það aukning á starfsemi bráðamóttöku, bráðalegudeilda og stoðdeilda undanfarin ár, m.a. vegna samþjöppunar þjónustu í heilbrigðisumdæminu, aldurssamsetningar íbúa og fleiri ferðamanna. Þjónusta göngudeilda hefur farið ört vaxandi og þjónar æ fleiri sjúklingahópum. Þá er bætt við um 20 m.kr. tímabundið til tækjakaupa. Verði þetta niðurstaðan duga fjárveitingar ekki til að standa undir nauðsynlegri þjónustu sjúkrahússins,“ skrifar Bjarni.

Hann segir enn fremur, að upplýsingar um þessa stöðu hafi verið kynntar fyrir heilbrigðisráðherra og þingmönnum kjördæmisins.

„Íbúar á þjónustusvæði Sjúkrahússins á Akureyri verða að geta treyst því að tekið sé með sama hætti á raunvexti sérgreinasjúkrahúsanna og sérþarfa þeirra. Ég trúi því að ríkisstjórn og Alþingi bregðist við og veiti frekari fjármunum til Sjúkrahússins á Akureyri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert