Dómur í Mosfellsdalsmálinu í dag

Frá vettvangi í Mosfellsdal í júní.
Frá vettvangi í Mosfellsdal í júní. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Dómur verður kveðinn upp í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni í dag, en hann er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, en ekki manndráp, í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar. Arnar lést í kjölfar árásarinnar sem átti sér stað fyrir utan heimili hans í Mosfellsdal 7. júní á þessu ári.

Arn­ar var sagður hafa kafnað vegna mik­ill­ar minnk­un­ar á önd­un­ar­hæfni sem olli ban­vænni stöðukæf­ingu sem má rekja til ein­kenna æs­ing­sóráðs vegna þvingaðrar fram­beygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arn­ari í.

Aðalmeðferð málsins fór fram 22. til 23. nóvember, en Sveinn Gestur neitaði þar sök í málinu. Óumdeilt er að hann fór ásamt Jóni Trausta Lútherssyni og fjórum öðrum að heimili Arnars. Deilt er um ástæður heimsóknarinnar og þess sem síðar fór fram. Meðal annars sagði Sveinn Gestur fyrir dómi að Jón Trausti hafi veitt Arnari alla áverka sem hann hlaut, en sjálfur hafi hann haldið Arnari niðri í stellingu sem ekki ætti að geta valdið dauða hans.

Fór saksóknari fram á 4-5 ára dóm yfir Sveini Gesti. Þá voru einkaréttarkröfur upp á 54 milljónir, en Arnar lét eftir sig unnustu, 15 ára dóttur og dóttur sem var nýlega fædd þegar Arnar lést.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert