Erlendur karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir manndráp á Sanitu Brauna á Hagamel fimmtudaginn 21. september. Í ákæru málsins kemur fram að maðurinn hafi slegið Sanitu ítrekað í andlit og höfuð með tveimur til þremur glerflöskum og slökkvitæki sem var tæplega 10 kíló.
Þá er hann sagður hafa hert kröftuglega að hálsi hennar, en allt þetta orsakaði það að Sanita „lést vegna röskunar á blóðstreymi til heila vegna margra högg- og skurðáverka á höfði sem ollu mörgum áverkum á hörundi, brotum á höfuðkúpu og kúpugrunni ásamt blæðingu innan höfuðkúpu auk þess sem hún hlaut punktblæðingar í táru og glæru augnloka og í innanvert munnhol og blæðingar í hálsvöðva.“
Ákært er á grundvelli 211. Greinar almennra hegningarlaga, en sú grein fjallar um manndráp. Er lágmarksrefsing undir þeirri grein 5 ár, en að hámarki ævilangt fangelsi.
„211. gr. Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Hinn ákærði heitir Khaled Cairo og er 38 ára gamall með jemenskt ríkisfang. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp í september.
Í einkaréttarkröfum fara foreldrar og þrjú börn Sanitu öll fram á að fá þrjár milljónir hvert í miskabætur, samtals 15 milljónir.