Sveinn Gestur dæmdur í 6 ára fangelsi

Sveinn Gestur Tryggvason var viðstaddur dómsuppkvaðininguna í héraðsdómi í morgun.
Sveinn Gestur Tryggvason var viðstaddur dómsuppkvaðininguna í héraðsdómi í morgun.

Sveinn Gestur Tryggvason var í dag dæmdur í 6 ára fangelsi í tengslum við dauða Arnars Jónssonar Aspar sem lést eftir líkamsárás sem hann varð fyrir í Mosfellsdal í júní. Dregst gæsluvarðhald Sveins Gests frá brotadegi frá fangelsisdóminum.

Þá var honum gert að greiða samtals 32 milljónir í miskabætur til unnustu Arnars, tveggja dætra hans og foreldra. Einnig var Sveini gert að greiða um 12,9 milljónir í sakarkostnað, málsvarnarlaun, réttargæslu og útfararkostnað.

Farið var fram á 4-5 ár

Strax eftir dómsuppsögu lýsti verjandi Sveins Gests því yfir að hann hygðist áfrýja dóminum. Fer hann því væntanlega fyrir Landsrétt á nýju ári. Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, saksóknari málsins, sagði við mbl.is eftir dómsuppsöguna að dómurinn væri í samræmi við kröfur ákæruvaldsins, en við málflutning ákæruvaldsins var farið fram á 4-5 ára dóm.

Sveinn Gestur var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás en ekki manndráp í tengslum við andlát Arnars Jónssonar Aspar, en hann lést í kjölfar árásarinnar. Átti árásin sér stað við heimili Arnars í Mosfellsdal 7. júní á þessu ári.

Arn­ar var sagður hafa kafnað vegna mik­ill­ar minnk­un­ar á önd­un­ar­hæfni sem olli ban­vænni stöðukæf­ingu sem má rekja til ein­kenna æs­ing­sóráðs vegna þvingaðrar fram­beygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arn­ari í.

Sveinn er sagður hafa haldið hönd­um Arn­ars fyr­ir aft­an bak þar sem Arn­ar lá á mag­an­um og tekið hann hálstaki og slegið hann ít­rekað í and­lit og höfuð með kreppt­um hnefa. Eru af­leiðing­ar þess­ar árás­ar tald­ar hafa valdið and­láti Arn­ars.

Deilt um ýmis atriði í aðdraganda andláts Arnars

Fyrir dómi kom fram að Sveinn Gestur hefði komið heim til Arnars auk Jóns Trausta Lútherssonar, vinkonu Jóns Trausta, starfsmanns Sveins og tveggja bræðra, sem komu meðal annars við sögu í skotárásarmáli í Breiðholti í fyrra. Sögðust þau öll hafa ætlað að sækja verkfæri til Arnars, en í máli ákæruvaldsins hefur heimsóknin verið tengd við rukkun þar sem Arnar skuldaði Sveini peninga.

Þá var deilt um hvort Arnar hefði ógnað Sveini, hvort einhver úr hópnum hefði reynt að keyra Arnar niður á planinu fyrir utan húsið hans. Niður frá húsinu liggur heimreið og fór Arnar á eftir hópnum þegar þau höfðu keyrt niður að hliðinu. Var hann með einhverskonar járnstöng. Deilt var um það í aðalmeðferð málsins hvað hefði svo gerst. Ljóst er að Jón Trausti fór á móti Arnari með öryggishamar og náði að afvopna hann. Fjölskylda Arnars og nágranni sem urðu vitni að atlögunni sögðu hins vegar að bæði Jón Trausti og Sveinn Gestur hefðu farið á móti honum og að Sveinn Gestur hefði stokkið á Arn­ar og komið hon­um á mag­ann og síðan látið bar­smíðar dynja á hon­um. Sveinn hefði svo legið með þunga á Arn­ari, en sú staða er helst tal­in hafa or­sakað önd­un­ar­erfiðleika hjá Arn­ari vegna æs­ings­óráðs sem svo hafi valdið dauða hans.

Sagði annan mann hafa veitt áverkana

Sveinn Gestur sagði fyrir dómi að Jón Trausti hefði veitt Arnari alla áverkana og að hann hefði svo komið að og ekki viljað meiri meiðsl og því tekið við að halda Arn­ari niðri, sem hann sagði hafa verið mjög æst­an. Hann hefði hins veg­ar haldið hon­um niðri með að halda hönd­um hans fyr­ir aft­an bak sitj­andi klof­vega á rass­in­um á hon­um, en slíkt ætti lík­leg­ast ekki að geta valdið þeim atriðum sem eiga að hafa leitt Arn­ar til dauða.

Sveinn hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi frá því að árás­in átti sér stað.

Sveinn Gestur Tryggvason í Héraðdómi Reykjavíkur í morgun.
Sveinn Gestur Tryggvason í Héraðdómi Reykjavíkur í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert