Taldir tilheyra skipulagðri glæpastarfsemi

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennirnir þrír sem handteknir voru hér á landi 12. desember og úrskurðaðir í gæsluvarðhald tilheyra hópi sem er rannsakaður eins og um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða.

Þetta sagði, Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Hinir grunuðu, sem eru pólskir ríkisborgarar, voru handteknir í viðamikilli, alþjóðlegri lögregluaðgerð sem er afrakstur samstarfsverkefnis rík­is­lög­reglu­stjóra, lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu og á Suður­nesj­um, Héraðssak­sókn­ara og toll­stjóra í sam­starfi við pólsk og hol­lensk yf­ir­völd svo og evr­ópu­stofn­an­irn­ar Europol og Euroj­ust.

Aðgerðirnar hafa staðið yfir í nokkra mánuði en greint var frá fyrirkomulagi og gangi þeirra á blaðamannafundi í dag. 

Frétt mbl.is: Lögðu hald á amfetamínbasa og MDMA

Að sögn Gríms hefur sambærileg rannsókn í svipuðum málum þar sem jafn mikillar alþjóðlegrar samvinnu gætir ekki verið gerð hér á landi. Það sem er einna helst frábrugðið í rannsókninni sem kynnt var í dag er að ekki er einungis um rannsókn á innflutningi fíkniefna að ræða, víðtæk fjármálarannsókn skili einnig miklum árangri. „Það skilar því að við vissum nokkuð vel hver eignastaða hinna grunuðu var,“ sagði Grímur.

Mennirnir þrír hafa verið búsettir hér á landi um nokkurn tíma og eru grunaðir um inn­flutn­ing og fram­leiðslu á fíkni­efn­um, pen­ingaþvætti og fjár­svik­.

Kamil Bracha, rann­sókn­ar­lög­reglu­stjóri Pól­lands, greindi frá því á blaðamannafundinum í dag að mennirnir séu allir vel þekktir í Póllandi fyrir glæpastarfsemi og að þeir hafi afplánað fangelsisdóma fyrir glæpi sína í heimalandinu.

Hinir grunuðu eru taldir vera hluti af skipulagðri glæpastarfsemi sem teygir anga sína til að minnsta kosti þriggja Evrópulanda. „Þessi hópur sem við erum með til rannsóknar er rannsakaður eins og um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða, þó svo að það sé ekki staðfest,“ sagði Grímur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert